Innlent

Þungu fargi létt af fjölskyldu Karólínu eftir að verkin fundust

Þungu fargi er létt af fjölskyldu Karólínu Lárusdóttur eftir að innbrotsþjófur vísaði á 13 ókláruð verk listakonunnar í gærkvöldi. Lögreglan segir það vera óvanalegt en ánægjulegt þegar mál eru upplýst með þessum hætti.

Innbrotsþjófar létu greipar sópa í geymslu Karólínu Lárusdóttur í miðbæ Reykjavíkur um jólin og höfðu á brott með sér ókláruð málverk listakonunnar. Stephen Lárus Stephen, sonur Karólínu, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að fjölskyldan væri í áfalli vegna málsins og ætlaði að bjóða hálfa milljón króna í fundarlaun fyrir þann sem veitt gæti upplýsingar vegna málsins. Rannsókn málsins tók í kjölfarið óvænta stefnu.

„Í kjölfar fréttarinnar í gær þar sem lýst var eftir þessum myndum hafði þjófurinn samband við okkur og óskaði þess að gera hreint fyrir sínum dyrum, skila myndunum. Hann vísaði á samverkamann.“ Segir Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn.

Fjölskylda Karólínu var himinlifandi þegar staðfest var í dag að verkin sem fundust við húsleitina væru hennar.

„Þær líta vel út og við erum himinlifandi yfir því að þær séu komnar til baka.“ Segir Stephen.



Stephen segist ekki hafa átt von á jafn skjótum endi á eins og raun bar vitni.

„Ég hélt að við myndum mögulega sjá þær aftur en ekki með þessum hætti.“ Segir Stephen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×