Menning

Þú trúir á listagyðjuna og ég er rammkaþólskur

Magnús Guðmundsson skrifar
Laufey Sigurðardóttir, Anna Áslaug Ragnarsdóttir og Einar Jóhannesson á æfingu fyrir tónlistarhátíðina Músík í Mývatnssveit.
Laufey Sigurðardóttir, Anna Áslaug Ragnarsdóttir og Einar Jóhannesson á æfingu fyrir tónlistarhátíðina Músík í Mývatnssveit. Visir/Anton Brink
Tónlistarhátíðin Músík í Mývatnssveit er fyrirhuguð um páskana og er það í nítjánda sinn sem þessi skemmtilega, klassíska tónlistarhátíð er haldin í sveitinni. Að vanda er það Laufey Sigurðardóttir fiðluleikari sem hefur veg og vanda af hátíðinni og þegar náðist í Laufeyju var hún ásamt fleiri tónlistarmönnum í bíl á leiðinni norður í Mývatnssveit en nánar tiltekið í bíl á ferð um Vatnsskarðið. Einar Jóhannesson klarinettuleikari situr við stýrið en Laufey, forsprakki hátíðarinnar, lætur fara vel um sig í aftursætinu og nýtur útsýnisins.

„Við lögðum af stað í bítið og erum hérna í bílnum að hlusta á fallega tónlist í útvarpinu. Við erum einmitt að ræða núna hvað er í útvarpinu þessa stundina og hver sé að spila. Þetta reyndist okkur nokkur þraut að hafa ekki þekkt það sem var verið að spila og nú skömmumst við okkar dálítið fyrir að hafa ekki þekkt þetta svo við höfum ekki fleiri orð um það. En það er góður taktur hjá okkur hérna í bílnum.

Við ætlum að vanda að vera með tónleika á skírdag og föstudaginn langa. Það er nú ekki alltaf sama fólkið sem stendur í þessu með mér en Einar og Anna hafa bæði komið með mér þó nokkrum sinnum áður. En ég reyni að breyta til á milli ára og gæta þess að hver hátíð hafi sitt svipmót.“

Aðspurð hvernig hafi komið til að hún hafi ákveðið að halda þessa hátíð segir Laufey að það sé nú alltaf sama gamla svarið við því en að það sé þó kannski enn meira viðeigandi í dag en þegar hátíðin var fyrst haldin. „Það var nú þarna fyrir nítján árum að fólki fannst að það vantaði kannski annars konar afþreyingu en þessa útivistarmöguleika og þetta var svona til þess að koma til móts við það. Það er enn sú hugsun sem stendur að baki. Mér finnst þeir sem sjá um ferðamál á Íslandi vera soldið gamaldags að því leyti að þeir halda að ferðamenn hafi ekki áhuga á neinu nema landinu. Ég veit að landið er stórkostlegt en venjulegur ferðamaður hefur líka áhuga á menningu. Ég held að þetta sé gamaldags viðhorf hjá þeim sem stjórna í ferðamálum.“

Hátíðin er alltaf haldin um páskana en þegar Laufey er innt eftir því hvort hún sé sjálf trúuð þá ætlar hún að gefa sér góðan tíma til svars og endurtekur spurninguna upphátt svona til umhugsunar. Einar er þá ekki lengi að grípa boltann á lofti og tekur af henni svarið: „Laufey, þú trúir á listagyðjuna og ég er rammkaþólskur.“ Og Laufey segist vel geta fallist á að láta Einari það eftir að svara þessari spurningu og talið berst aftur að hátíðinni sjálfri.

„Þetta er fjölmennasta hátíðin til þessa því allur karlakór Suður-Þingeyinga ætlur að hefja upp raust sína, Hreimur sjálfur, undir stjórn Steinþórs Þráinssonar. Við spilum svo tríó eftir Khatsaturian og Menotti og fleiri. Þetta er á fyrri tónleikunum á skírdag en þeir verða haldnir í félagsheimilinu Skjólbrekku klukkan átta. Á föstudaginn langa verðum við svo í Reykjahlíðarkirkju klukkan níu um kvöldið og spilum Mozart og Bach og Sesselía Kristjánsdóttir mezzosópran syngur Dvorák og hún ætlar að syngja líka með kórnum. Svo er Aladár Rácz píanóleikari með okkur og einnig Anna Áslaug Ragnarsdóttir og svo auðvitað Einar.

Tónleikarnir í Reykjahlíðarkirkju eru hugsaðir sem ein heild og það er ekki klappað á milli atriða og við reynum að tengja saman ólíka tónlist. Það er svona soldið íhugul eða meiri helgistemning yfir seinni tónleikunum en skírdagstónleikarnir eru talsvert öðruvísi. Það er gott að spila í báðum þessum húsum svo við erum farin að hlakka til tónleikanna. Fólk er duglegt að mæta og svo búumst við auðvitað við því að Hollywood-stjörnurnar sem fylla sveitina þessa dagana komi og fái upplyftingu andans og hvíld frá vinnunni,“ segir Laufey glaðlega og heldur ferðinni áfram ásamt fríðu og tónelsku föruneyti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×