Handbolti

Þú getur kosið Framsókn, Samfylkinguna og Viðreisn en ekki að sjá ÍR og HK

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Handknattleikssamband Íslands er búið að færa viðureign ÍR og HK í 1. deild kvenna í handbolta fram um tvo daga vegna alþingiskosninga sem fram fara laugardaginn 29. október.

Til stóð að ÍR og HK áttu að mætast þennan laugardag en vegna kosninganna verður hann spilaður tveimur dögum fyrr, fimmtudaginn 27. október klukkan 20.00.

„Vegna alþingiskosninga hefur verið ákveðið að færa leik ÍR og HK í 1.deild kvenna til fimmtudagsins 27.október kl.20.00. Vinsamlegast takið mið af,“ segir í tilkynningu HSÍ til fjölmiðla.

Ástæðan er væntanlega að Austurberg, íþróttahús ÍR-inga, verði notaður sem einn af kjörstöðum í Reykjavíkurkjördæmi norður en síðast var kosið þar í forsetakosningunum í sumar.

Alþingiskosningarnar munu því hafa áhrif á íþróttalífið í landinu og geta handboltaáhuga menn ekki kosið að sjá þennan leik í 1.deild kvena.

Aftur á móti geta þeir, eins og aðrir Íslendingar, kosið þann stjórnmálaflokk sem þeir vilja í staðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×