Fótbolti

Þrumuveður tafði endurkomu Kolbeins

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kolbeinn í leik með Ajax í Meistaradeild Evrópu gegn Andres Iniesta og félögum í Barcelona.
Kolbeinn í leik með Ajax í Meistaradeild Evrópu gegn Andres Iniesta og félögum í Barcelona. Vísir/getty
Kolbeinn Sigþórsson var mættur á Schipol-flugvöllinn í Amsterdam í hádeginu í dag á sama tíma og flugvél Icelandair, með fimm leikmenn og fylgdarlið frá Íslandi, lenti. Framherjinn átti reyndar að vera mættur nokkru fyrr en töf varð á flugi hans til Amsterdam vegna þrumuveðurs.

Enginn í íslenska landsliðshópnum þekkir betur til í Amsterdam en Kolbeinn. Hann spilaði með Ajax í fjögur ár eða allt þar til hann gekk til liðs við Nantes í Frakklandi í sumar. Hann þekkir þá list ágætlega að skora á Amsterdam Arena þar sem leikið verður gegn Hollendingum á fimmtudaginn.

Reiknað er með því að allir leikmenn landsliðsins, fyrir utan Emil Hallfreðsson, verði mættir til Amsterdam áður en æfing liðsins hefst klukkan 16:45 að staðartíma, 14:45 að íslenskum tíma. Emil meiddist aftan í læri í tapleik Hellas Verona gegn Genoa í efstu deildinni á Ítalíu í gær og fór af velli eftir aðeins tuttugu mínútna leik.

Emil átti að fara með flugi frá Ítalíu í hádeginu í dag. Hann er þó í skoðun þegar þetta er skrifað og óvíst um þátttöku hans í leikjunum tveimur gegn Hollandi og Kasakstan. Ólafur Ingi Skúlason kemur til móts við landsliðið í kvöld vegna meiðsla Emils.


Tengdar fréttir

Ólafur Ingi heldur til Amsterdam

Óskað hefur verið eftir kröftum miðjumannsins í ljósi meiðsla Emils Hallfreðssonar og Arons Einars Gunnarssonar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×