Innlent

Þroskaðist á Litla-Hrauni

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Fangar á Litla-Hrauni bera virðingu fyrir skólanum og því starfi sem þar fer fram.
Fangar á Litla-Hrauni bera virðingu fyrir skólanum og því starfi sem þar fer fram. visir/gva
Það er verið að skreyta fyrir jólin á Litla-Hrauni. Stórar málaðar viðarskreytingar prýði veggi og hlið og risavaxið jólatré verður reist á miðju torginu. Margrét er stolt af vistmönnum sem leggja mikið upp úr því að gera umhverfið vistlegt um jólin. Hún hefur leitt blaðamann um fangelsið og frætt hann um mikilvægt skólastarf sem þar fer fram. Nýafstaðin eru próf og margir fanganna hafa fengið einkunnir sínar. Flestir hafa staðist þau með ágætum.

Á skrifstofu Margrétar eru ljósmyndir og bréf frá þakklátum föngum í hillum og á veggjum. Á einni ljósmynd má líta einn þeirra sem ber stúdentshúfu og stendur stoltur með fjölskyldu sinni, konu og ungu barni. „Ég fæ mikið af bréfum og myndum sendum til mín. Þeir eru svo margir sem hafa staðið sig vel.“

Í desembermánuði hefur Fréttablaðið fjallað um menntamál fanga sem líða fyrir fjárskort. Búið er að skera niður stöðu náms- og starfsráðgjafa í fangelsinu, þá er mikill munur á aðstöðu fanga til náms eftir því hvar þeir afplána og íslensk stjórnvöld standast ekki þær alþjóðlegu skuldbindingar sem þau hafa gengist undir.

Brosið fer ekki af þeim

Margrét segir það mundu hafa mikil og víðtæk áhrif væri betur stutt við menntamál fanga. „Það myndi hafa mjög góðar víðtækar afleiðingar, ekki bara fyrir þá heldur okkur öll. Það hefur sýnt sig að margir sem stunda nám hér halda áfram þegar þeir koma út. Þegar þeir eru einu sinni búnir að átta sig á því að þeir geta lært þá vilja þeir halda áfram og verða betri þegnar í samfélaginu.“ Hún segir gjöfult að fylgjast með því þegar þeir uppgötva fyrst að þeir geti lært. „Stór hluti fanga hefur flosnað upp úr námi í grunnskóla. Þegar þeir hafa áttað sig á því að þeir geta lært, sem er oft þegar þeir hafa náð fyrsta prófinu sínu, þá fer brosið ekki af þeim.“

Skilningur hefur aukist á mikilvægi skólastarfs í fangelsum og námi sem betrun að mati Margrétar. Þó vantar upp á að sá skilningur skili sér í fjárstuðningi. „Nú er ég að berjast fyrir því að fá náms- og starfsráðgjafa aftur í fulla stöðu. Það breytti svo miklu að fá slíkan ráðgjafa árið 2007. Þetta er allt spurning um forgangsröðun, við erum kannski ekki komin ofarlega á listann en skilningur hefur aukist mikið fyrir námi sem betrun. Það er alveg ljóst að nám dregur úr endurkomutíðni.“

Fá metnað fyrir börn sín

Áhrif náms fanga eru víðtækari. Þau ná til fjölskyldu hans. „Við erum kannski með vistmann hér sem sér að hann getur lært og hann á kannski sjálfur ungling sem á erfitt með nám. Um leið og vistmenn hér fá metnað fyrir sjálfa sig, þá fá þeir líka metnað fyrir börnin sín. Að þau leggi rækt við námið og fái þá þjónustu sem þeim ber í grunnskólum. Þjónustu sem þeir fengu ef til vill ekki þegar þeir voru sjálfir börn. Þetta skiptir mjög miklu máli.“

Ríkið verslar ekki nægjanlega mikið við Litla-Hraun

Meginmarkmið Margrétar er að sjá til þess að vistmenn fái rúm til betrunar. Það gerir hún með því að veita vistmönnum atvinnu og tækifæri til náms.

„Það sem við þurfum að hafa til staðar í hverju fangelsi er framboð af vinnu og framboð af námi. Hlutverk stjórnvalda er að skapa aðstæðurnar, að sjá til þess að tækifærin séu til staðar. Við erum alltaf að leita að verkefnum fyrir vistmenn hér. Við erum í góðu samstarfi við Íslenska gámafélagið, þar sem er verið að hirða úr gömlum tækjum endurnýtanlega málma, við höfum líka fengið verkefni frá Landvörslu ríkisins þar sem við erum að skanna inn myndasafnið þeirra. Við höfum líka hreinsað vegastikur, hreinsað þær og endurmerkt. Við erum alltaf að ná okkur í lítil verkefni. Það er ekki nóg af þessum verkefnum. Við misstum í hruninu frá okkur verkefni og það er ekki nægjanlega ríkur vilji hjá ríkisstofnunum eða hálfopinberum stofnunum að versla við okkur húsgögn sem við smíðum. Við megum ekki auglýsa, sem er algjörlega fáránlegt. Þetta er endurhæfing og ekki samkeppni, það ætti að líta á það á þann hátt.“

Námi á Litla-Hrauni hefur líka verið breytt töluvert til að skapa fleiri tækifæri. Nú geta fangar skráð sig í nám hvenær sem þeir koma til afplánunar. Námsráðgjafinn fyrrverandi kom þessu til leiðar.

Fangar smíða húsgögn og fleira til þess að skapa sér atvinnu. Margrét stendur hér við jólaskraut sem fangar smíðuðu.vísir/gva
Lærði að lesa í fangelsinu

Bakgrunnur þeirra sem koma til afplánunar er oft sá að þeir hafa flosnað upp úr grunnskóla á barnsaldri. Því er að mörgu að huga þegar hugað er að námi. Margrét segir stóran hóp sem kemur í fangelsi til afplánunar ólæsan eða með engan lesskilning. Hún segir sögu ólæss drengs sem lærði að lesa í fangelsinu og tók íslenskupróf í haust. Hann fékk 9,2 í öðru þeirra. 

„Við erum smátt og smátt að uppgötva að það er stór hópur sem kemur í fangelsi sem er ólæs eða með engan lesskilning. Þeir geta ekki lesið sér til gagns. Það hefur heldur ekki verið horft á það í fjárveitingum. Ég fékk hins vegar styrk úr sjóði sem ég sótti um og í framhaldi af því höfum við verið með lestrarnámskeið í gangi allt þetta ár sem hafa verið að skila ótrúlegum árangri. Einn drengur sem var stautandi og hafði engan lesskilning fór á lestrarnámskeið í janúar á þessu ári. Í maí gat hann lesið upp úr AA-bókinni á fundum. Í haust tók hann svo sitt fyrsta próf í íslensku, þá átti hann að lesa fjóra kafla og taka krossapróf. Hann tók tvö próf. Í öðru fékk hann 8,6 og hinu 9,2.“

Hún segir sögu þessa drengs dæmigerða. Margir ungir drengir flosni upp úr námi og fari með brotið sjálfstraust út í samfélagið. „Þessi drengur átti mjög erfiða æsku, á einhverjum tímapunkti lætur samfélagið sig ekki varða um það að hann á erfiða æsku. Þótt öllum hafi verið það ljóst. Hann hefur fengið nokkra dóma og hefur aldrei getað lesið þau gögn sem hann skrifaði undir. Þetta er óskapleg hefting fyrir einstakling að geta ekki lesið sér til gagns. Mér finnst þetta svo mikill sigur, honum finnst það líka. Þetta eykur sjálfstraustið og von um að það sé hægt að gera eitthvað annað. Það að það sé hægt að læra og stunda vinnu og afla sér einhverra réttinda. Í því samhengi þurfum við miklu meira verknám og við þurfum aðstöðu fyrir það.“ 

Sérgreiningar og engin þjónusta 

Hún segir vandann vinda upp á sig í skólakerfinu og gagnrýnir skort á þjónustu til þeirra drengja sem hafa fengið greiningar en lítið sé brugðist við. 

„Margir flosna upp úr skóla 12-14 ára gamlir, eru þá jafnvel komnir í einhverja neyslu. Ég hef fengið foreldra drengs sem var í námi hér til mín. Þau sýndu mér möppu sem var full af alls kyns greiningum á barninu. En ekki á neinum tímapunkti hafði hann fengið neina sérþjónustu, þrátt fyrir allar greiningarnar. Ég held að hver kennari sé ofhlaðinn, með svo mörg börn í bekk og oft erfiða bekki þar sem eru margir sem þurfa á séraðstoð að halda. Þessar sérgreiningar skila sér ekki í þjónustu. Margir hér hafa upplifað skólann sem neikvæðan þátt í sínu lífi. Skólagangan hefur einkennst af höfnun. Hér finna þeir fyrir umhyggju og hlýju, fá hvatningu frá kennurunum. Við höfum verið heppin með kennara frá Fjölbrautaskólanum. Þeim er hjálpað að finna eitthvað sem þeir ráða við til að yfirstíga þennan þröskuld að byrja í skóla.“

Friðhelgur staður

Fangarnir bera mikla virðingu fyrir skólastarfinu og gæta þess að friður sé um það. „Það eru undantekningartilvik að það gerist eitthvað slæmt í skólanum hér. Það er eins og þeir beri virðingu fyrir honum. Þetta er friðhelgur staður. Þetta skiptir þá gríðarlega miklu máli og auðvitað er varla hægt að lýsa því hvað þetta skiptir miklu máli í betrunar- og endurhæfingarstarfi. Við leggjum mesta áherslu á skólann, bæði hér og á Sogni.“

Hún segir þá fanga sem ákveða að læra hafa fyrir því. „Það er ekkert gefins í þessu samfélagi. Við erum upptekin af því að allir hlutir eigi að koma upp í hendurnar á okkur, margir vistmanna hugsa þannig líka hér. En það er ekki þannig með námsmenn á Litla-Hrauni. Það er einstaklingurinn sem ræður því hvað hann gerir hér. Hvað hann ætlar að gera við tímann. Ætlar hann að láta hann líða og koma aftur inn, takast ekki á við líðandi stund? Þeir sem virkilega leggja á sig í námi og eru í því af heilum hug, það sýnir sig að þeir eru að eygja aðra möguleika.“

Mikið eftirlit

Mikið eftirlit er með föngum í námi. Öll tölvunotkun og samskipti eru skimuð. Enginn vistmaður kemst upp með að vera í námi án þess að leggja sitt af mörkum. Margrét segir enda mikið í húfi.

„Það er rangt að menn hafi skráð sig í skóla bara til þess að fá meiri útivist eða fá greitt. Ég fæ í hverri einustu viku yfirlit frá kennurum um ástundun, þá fæ ég afrit af öllum tölvupóstum, tölvunotkun og verkefnum sem er skilað. Menn fá svo bara greitt í takt við mætingu og ástundun. Það verður að vera mikið eftirlit, þetta skiptir svo miklu máli að það má ekkert út af bregða.“

Hún segir marga taka stórt stökk í þroska í námi. „Þetta eykur sjálfstraust þeirra og þroska. Þú getur kannski fengið fanga inn sem er þrítugur í árum talið en að tala við viðkomandi er eins og að tala við fjórtán, fimmtán ára gamlan ungling. Þetta breytist oft mikið í námi. Á meðan fangar stundar nám þá breytast viðhorf gagnvart fjölskyldu, samfélagi og gagnvart sjálfum þeim. Ég finn að margir eiga þá líka auðveldara með að horfast í augu við það sem þeir hafa gert og taka ábyrgð á því.“

Gefandi starf

Starfið segir hún bæði gefandi og erfitt. Þegar hún var á vígvelli stjórnmálanna hlakkaði hún ekki mikið til að fara í vinnuna. Nú hlakkar hún til að morgni hvers dags.

„Þetta er ótrúlega gefandi starf. Það tekur heilmikinn toll af manni líka, en það eru ákveðin forréttindi að vakna á hverjum morgni og hlakka til að fara í vinnuna. Ég þekki vel annan vinnustað þar sem ég var hætt að hlakka til,“ segir hún og brosir. „Það er mikil breyting fyrir mig. Nú, sjö árum eftir að ég kom hingað, þá finnst mér starfið enn þá jafn gefandi. Jafnvel enn meira, maður öðlast alltaf meiri skilning og þroska. Ég hef þroskast mikið á Litla-Hrauni,“ segir Margrét og skellir upp úr. 

Allir hafa hæfileika

Margrét eygir alltaf eitthvað gott í hverjum þeim sem kemur til afplánunar. „Þetta eru manneskjur. Ég er bara sannfærð um það að langstærstur hluti þeirra sem koma hingað inn á eitthvað gott í sér. Það er okkar að vinna úr því, draga það fram og að það verði ríkjandi og ráðandi í þeirra fari. Það hafa allir hæfileika, það er líka okkar að finna þá og rækta. En ég lít ekki á það sem mitt hlutverk endilega að það sé allt rétt upp í hendurnar á þeim. Þeir þurfa að hafa fyrir hlutunum og læra að á hverjum einasta degi þá þurfum við að hafa fyrir einhverju og takast á við eitthvað.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×