Erlent

Þrjú þúsund milljarðar trjáa í heiminum

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Þessi tré eru á Kúbu en alls munu trén hér á jörðu vera rúmlega þrjú þúsund milljarðar talsins.
Þessi tré eru á Kúbu en alls munu trén hér á jörðu vera rúmlega þrjú þúsund milljarðar talsins. NordicPhotos/AFP
Á jörðunni munu vera rúmlega þrjár billjónir trjáa, en hver billjón er þúsund milljarðar. Þetta fullyrðir vísindamaðurinn Thomas Crowther við Yale-háskóla.

Crowther hefur birt grein um þetta í vísindatímaritinu Nature. Fjöldi vísindamanna skrifar greinina með honum.

Áður töldu menn að fjöldi trjáa á jörðu væri í mesta lagi 400 milljarðar, en Crowther og félagar byggja niðurstöðu sína á ítarlegri greiningu á loftmyndum, sem sýna þéttni skóga út um allan heim.

Í Amasonskóginum einum munu vera um það bil 390 milljarðar trjáa.

Í viðtali við breska útvarpið BBC segir Crowther þessar niðurstöður samt ekki breyta neinu í reynd. „Það er ekki eins og við höfum uppgötvað fjöldann allan af nýjum trjám,“ segir hann. „Þannig að það eru hvorki góðar fréttir né slæmar fyrir heimsbyggðina að við séum komin með þessa nýju tölu.“

Vísindamennirnir hafa jafnframt komist að því að á hverju ári höggva menn meira en 15 milljarða trjáa. Þá segja þeir að trjám hér á jörðu hafi fækkað um um það bil 46% frá því mannkynið tók að setja mark sitt á umhverfið.

„Evrópa var í eina tíð að mestu hulin einum risaskógi en nú eru þar nánast eingöngu akrar og graslendi,“ segir Crowther á fréttavef BBC.

Flest eru trén í hitabeltinu og heittempraða beltinu, eða nærri 1,4 billjónir. Þá eru 600 milljarðar trjáa í tempraða beltinu en 700 milljarðar í barrskógabeltinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×