Erlent

Þrjár konur skotnar til bana í Finnlandi í nótt

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Svæðið var girt af.
Svæðið var girt af. Skjáskot af vef YLE
Þrjár konur voru skotnar til bana fyrir utan veitingastað í bænum Imatra í suðaustur-hluta Finnlands í nótt.

Lögreglan vill lítið tjá sig um málið á þessari stundu en sendi frá sér yfirlýsingu þar sem greint var frá því að einn væri í haldi vegna málsins og árásin hefði átt sér stað upp úr miðnætti.

Lögreglan tilgreinir ekki hversu margir féllu í árásinni eða hvurslags vopn hafi verið notað en fréttmaður Yle, finnska ríkisútvarpsins, sem var á svæðinu í nótt segist hafa séð þrjú lík hulin hvítum ábreiðum á gangstéttinni fyrir framan staðinn.

Skotárásin átti sér stað í bænum Imatra.Kort af vef Yle
Hann segir að þeim hafi verið ráðinn bani með haglabyssu og að íbúar bæjarins séu í áfalli vegna árásarinnar.

Búið er að opna fjöldahjálparmiðstöð í bænum, en Imatra telur um þrjátíu þúsund manns.

Ekki er búist við frekari upplýsingum frá lögreglu fyrr en líða tekur á daginn. Fjölmennt lið tæknideildar lögreglunnar var að störfum framundir morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×