Innlent

Þrjú ár fyrir kynferðisbrot gegn stjúpdóttur: Móðirin reyndi að hafa áhrif á framburð stúlkunnar

Benedikt Bóas skrifar
Maðurinn er dæmdur til þriggja ára fangelsisvistar fyrir brotin gegn stjúpdóttur sinni.
Maðurinn er dæmdur til þriggja ára fangelsisvistar fyrir brotin gegn stjúpdóttur sinni. vísir/gva
Móðir stúlku lagði hart að dóttur sinni að draga frásögn sína til baka um kynferðislega misnotkun af hálfu stjúpföður síns. Stúlkan breytti framburði sínum við aðalmeðferðina en í niðurstöðu dómsins segir að fyrri skýrslur stúlkunnar þyki bæði trúverðuggar og þeim beri saman. Ekki sé vitað hvers vegna stúlkan breytti vitnisburði sínum en sá vitnisburður verði ekki lagður til grundvallar niðurstöðunni.

Stjúpfaðir stúlkunnar var því dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir misnotkun en brotin áttu sér stað þegar stúlkan var þrettán og fjórtán ára gömul.

Maðurinn játaði tvisvar í yfirheyrslum hjá lögreglu og bar fyrir sig áhyggjur af því að stúlkan væri byrjuð að stunda kynlíf. Hann hefði varla sofið og viljað athuga hvort meyjarhaftið væri enn órofið. Framburður hans fyrir dómi þótti bæði ruglingslegur og ekki eiga sér neina stoð í raunveruleikanum.

Ráðgjafi barnaverndar í heimabæ stúlkunnar bar vitni fyrir dómi og greindi frá því að stúlkan hefði sagt sér að móðir hennar legði hart að henni að draga frásögnina til baka.

Á það hlustaði dómurinn ekki og dæmdi manninn til að greiða stjúpdóttur sinni tvær milljónir króna í bætur.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×