Innlent

Þrjótar segjast búa yfir myndböndum af Íslendingum horfa á klám

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við svikapóstum þar sem tölvuþrjótar segjast búa yfir myndböndum af Íslendingum skoða klám.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við svikapóstum þar sem tölvuþrjótar segjast búa yfir myndböndum af Íslendingum skoða klám.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við svikapóstum þar sem tölvuþrjótar segjast búa yfir myndböndum af fólki skoða klám. Þrjótarnir krefjast greiðslu fyrir að birta myndböndin ekki á netinu. Lögreglan, sem segir fjölda Íslendinga hafa tilkynnt þessa pósta, segir þó að um fjölpósta sé að ræða og ekkert bendi til þess að þeir búi í raun yfir því sem þeir hóta.

Umræddir þrjótar segjast hafa komist yfir lykilorð notenda og að þeir hafi sýkt tölvu viðkomandi vírus þegar ákveðin klámsíða hafi verið heimsótt. Þannig hafi þeir geta tekið myndband af fólki og er gefið í skyn að viðkomandi hafi verið að eiga við sig í myndbandinu. Þeir hafa einnig birt lykilorð fólks í einhverjum tilfellum.

Lögreglan segir þessa pósta hafa verið senda á póstföng sem gangi kaupum og sölum á vefnum.

„Hinsvegar virðast þessi skeyti vera fjölpóstar. Ekkert gefur til kynna að þeir sem senda póstinn hafi einhver myndskeið eða hafi í raun gert neitt af því sem þeir hóta. Þeir hafa í sumum tilvikum komist yfir einhverja skrá með lykilorðum og nota það til að ljá hótun sinni meira vægi, en það virðist vera allt sem þeir hafa. Þetta form er kallað vefveiðar og er vel þekkt, fjölpóstur er sendur á marga og reynt að skapa hræðslu og stress til að fá brotaþola til að senda peninga.“

Þá mælir lögreglan með því að fólk hylji vefmyndavél sína þegar hún sé ekki í notkun og kanni hvort að tölvupóstföng og notendanöfn þeirra hafi lekið. Það sé hægt að gera á haveibeenpwned.com.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×