Innlent

Þrjátíu látnir eftir loftárás í Jemen

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/afp
Að minnsta kosti þrjátíu eru látnir eftir loftárás í suðurhluta Jemen í dag og fjölmargir eru slasaðir. Talið er að fjarstýrt flygildi, eða dróni, hafi verið notað til að ráðast gegn mönnum sem talið er að séu liðsmenn al-Kaída.

Hátt í tuttugu manns létu lífið í gær í svipaðri árás í Baida-héraði, suður af höfuðborginni Sanaa í Jemen. Bandarísk stjórnvöld eru talin bera ábyrgð á árásinni. Sprengju var skotið úr flygildinu á bíl liðsmanna al-Kaída, að talið er, og létu þar fimmtán lífið. Þrír fórust í öðrum bíl sem kom úr gagnstæðri átt. Talið er að saklausir vegfarendur hafi verið í þeirri bifreið.

Mannréttindasamtök hafa gagnrýnt árásirnar harðlega og segja að um sé að ræða aftökur án dóms og laga og segja þær brjóta bága við alþjóðalög. Drónaárásir Bandaríkjamanna hafa aukist mikið upp á síðkastið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×