Körfubolti

Þrjátíu ár liðin frá fyrsta bikarúrslitaleik Keflavíkurkvenna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thelma Dís Ágústsdóttirr er jafngömul og þegar móðir hennar Björg Hafsteinsdóttir lék sinn fyrsta bikarúrslitaleik fyrir 30 árum síðan.
Thelma Dís Ágústsdóttirr er jafngömul og þegar móðir hennar Björg Hafsteinsdóttir lék sinn fyrsta bikarúrslitaleik fyrir 30 árum síðan. Víisir/Eyþór
Keflvíkingar vonast til að geta haldið upp á stór tímamót í dag með enn einum bikarmeistaratili kvennaliðs félagsins í Laugardalshöllinni þegar þar fer fram úrslitaleikur Maltbikars kvenna milli Keflavíkur og Skallagríms.

Fyrir 30 árum lék kvennalið Keflavík sinn fyrsta bikarúrslitaleik en leikurinn í dag verður bikarúrslitaleikur númer 22. Það er magnað að Keflavíkurkonur hafi farið 22 sinnum í Höllina á þessum þrjátíu árum og að þrettán sinnum hafa þær farið með bikarinn til baka á Reykjanesbrautina.

Hið unga Keflavíkurlið sem mætir til leiks í Höllinni í dag á margt sameiginlegt með þeim Keflavíkurstelpum sem mættu í Laugardalshöllina fyrir þremur áratugum síðan.

Þá var Keflavíkurliðið einnig skipað kornungum stelpum sem voru þarna að mæta efsta liði deildarinnar. Í dag er það Skallagrímur en fyrir 30 árum síðan var það lið KR. Liðið frá 1987 sló líka Hauka út úr undanúrslitunum alveg eins og liðið 2017.

Keflavíkurliðið tapaði þessum fyrsta bikarúrslitaleik sínum (KR vann 65-61) en Keflavíkurstelpurnar komu reynslunni ríkari árið eftir og unnu sinn fyrsta af þrettán bikarmeistaratitlum. Keflvíkingar vonast reyndar örugglega til þess að það endurtaki sig ekki því stefnar er að koma með bikarmeistaratitil númer fjórtán til Keflavíkur annað kvöld.

Stigahæsti leikmaður Keflavíkur í úrslitaleiknum 1987 var hin átján ára gamla Anna María Sveinsdóttir með 22 stig. Emelía Ósk Gunnarsdóttir, sem skoraði mest af íslensku stelpunum í undanúrslitaleiknum (18 stig) er einnig átján ára.

Björg Hafsteinsdóttir, sem var þriðja stigahæst hjá Keflavík í bikaúrslitaleiknum fyrir 30 árum var einnig bara átján ára gömul. Dóttir Bjargar, Thelma Dís Ágústsdóttir, er leikmaður Keflavíkur í dag og hún var þriðja stigahæst í undanúrslitaleiknum. Thelma Dís  er jafngömul og móðir hennar var 1987.

Þegar Keflavík varð bikarmeistari í fyrsta sinn árið eftir, 1988, þá léku ennfremur með liðinu mæður tveggja leikmanna Keflavíkur í dag. Björg Hafsteinsdóttir (Thelma Dís Ágústsdóttir) var þá stigahæst með 25 stig og Elínborg Herbertsdóttir (Birna Valgerður Benónýsdóttir) var með tvö stig. Tengdamóðir fyrirliða Keflavíkur í dag, Ernu Hákonardóttur, var einnig með 1988-liði Keflavíkur en Bylgja Sverrisdóttir skoraði eitt stig í leiknum.



Leikmenn í fyrsta bikarúrslitaleik Keflavíkur 1987

Anna María Sveinsdóttir    22 stig

Guðlaug Sveinsdóttir     21 stig

Björg Hafsteinsdóttir     5 stig

Kristín Sigurðardóttir     5 stig

Margrét Sturlaugsdóttir     4 stig

Bylgja Sverrisdóttir     2 stig

Kristín Blöndal     2 stig

Gunnhildur Hilmarsdóttir     Skoraði ekki

Katrín M Eiríksdóttir     Skoraði ekki

Svandís Gylfadóttir     Skoraði ekki




Fleiri fréttir

Sjá meira


×