Erlent

Þrjár milljónir hafa flúið frá Sýrlandi

Ingvar Haraldsson skrifar
Tæplega helmingur Sýrlendinga hefur þurft að flýja heimili sitt.
Tæplega helmingur Sýrlendinga hefur þurft að flýja heimili sitt. Vísir/AFP
Þrjár milljónir Sýrlendinga hafa flúið land vegna borgarastyrjaldarinnar þar í landi, sem orðið hefur 190 þúsund manns að aldurtila. Þar af hefur ein milljón flóttamanna flúið landið síðastliðið ár.

Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna segir neyðarástand hafa skapast á svæðinu og þörf sé á stærstu aðgerð í 64 ára sögu samtakanna til að koma flóttamönnunum til hjálpar.

„Ástandið í Sýrlandi hefur skapað versta mannúðarástand okkar tíma og alþjóðasamfélagið hefur brugðist þörfum flóttamannanna,“ sagði Antonio Guterres, flóttamannafulltrúi Sameinuðu þjóðanna.

Til viðbótar við þá sem flúið hafa land hefur sex og hálf milljón Sýrlendinga þurft að flýja heimili sitt innan Sýrlands.

Fjöldi aðila hefur lýst yfir áhyggjum vegna ástandsins í þeim löndum sem flóttamennirnir hafa flúið til. Mikið álag er á innviðum þeirra landa og hætta talin á því að ofbeldi breiðist meira um svæðið en nú er orðið.

Fulltrúar Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna segja þá Sýrlendinga sem hafa flúið land vera skelfilega illa haldna. Að sögn starfsmanna SÞ eru flóttamennirnir hræddir, uppgefnir og búnir með allt sparifé eftir að hafa verið á flótta í allt að tvö ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×