Körfubolti

Þrír sigrar í röð hjá Hauki Helga og félögum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Haukur Helgi Pálsson er landsliðsmaður í körfubolta.
Haukur Helgi Pálsson er landsliðsmaður í körfubolta. vísir/anton
Haukur Helgi Pálsson og félagar hans í LF Basket unnu sannfærandi sigur á ecoÖrebro, 82-74, í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld.

Þetta er þriðji sigur LF Basket í röð, en liðið er þjálfað af Peter Öqvist, fyrrverandi landsliðsþjálfara Íslands.

Haukur Helgi kom aftur inn í liðið eftir meiðsli og spilaði 30 mínútur. Hann skoraði átta stig, gaf sex stosendingar og tók þrjú fráköst.

Með sigrinum fór liðið upp í 44 stig eftir 22 umferðir, en það er í fjórða sæti deildarinnar. Íslendingaliðið Sundsvall Dragons er sæti neðar með tveimur stigum minna en á leik til góða.

Sigurður Gunnar Þorsteinsson var einnig í sigurliði í kvöld, en Solna Vikings er áfram á fínum skriði í sænsku deildinni. Það vann fjögurra stiga sigur á KFUM Nässjö, 61-57, í kvöld og er búið að vinna fjóra af síðustu fimm leikjum sínum.

Ísafjarðartröllið spilaði rétt tæpar 20 mínútur í leiknum og skoraði sex stig auk þess sem hann tók þrjú fráköst.

Solna er sem fyrr í sjöunda sæti úrvalsdeildarinnar í Svíþjóð með 28 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×