Handbolti

Þrír Íslendingar tilnefndir sem þjálfari ársins hjá IHF

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Þórir Hergeirsson gæti hreppt hnossið í fimmta skiptið á ferlinum.
Þórir Hergeirsson gæti hreppt hnossið í fimmta skiptið á ferlinum. vísir/ernir
Alþjóðahandboltasambandið, IHF, birti í dag lista yfir þá tíu handboltaþjálfara sem koma til greina sem þjálfari ársins í karla- og kvennaflokki en Ísland á þrjá fulltrúa á þessum lista.

Eru fimm þjálfarar tilnefndir í hvorum flokki en í karlaflokki eru þeir Dagur Sigurðsson, Guðmundur Guðmundsson, Didier Dinart, Christian Berge og Veselin Vujovic tilnefndir. Í kvennaflokki eru Þórir Hergeirsson, Olivier Krumbholz, Kim Rasmussen, Henk Groener og Evgeniy Trefilov tilnefnd.

Er Guðmundur tilnefndur eftir að hafa leitt danska landsliðið til sigurs í fyrsta sinn á Ólympíuleikunum í Ríó en í úrslitaleiknum unnu þeir ríkjandi Heimsmeistara Frakklands.

Dagur er einnig tilnefndur eftir að hafa stýrt þýska landsliðinu óvænt til sigurs á Evrópumótinu í handbolta í Póllandi en sigur Þýskalands var afar óvæntur þar sem liðið saknaði nokkurra lykilleikmanna á mótinu.

Þá vann þýska liðið til bronsverðlauna á Ólympíuleikunum í Ríó undir stjórn Dags en hann hefur nú tekið við liði japanska landsliðsins.

Í kvennaflokki er Þórir tilnefndur en hann hefur fjórum sinnum áður verið valinn þjálfari ársins hjá Alþjóðahandboltasambandinu.

Undir stjórn Þóris vann norska liðið gullverðlaunin á EM í desember án þess að tapa leik á mótinu en þurfti að sætta sig við bronsverðlaun á Ólympíuleikunum.

Engir íslenskir leikmenn eru tilnefndir að þessu sinni en í karlaflokki eru liðsfélagar Nikola Karabatic, Mikkel Hansen og Sander Sagosen frá PSG og Andreas Wolff og Domagoj Duvnjak, leikmenn Kiel tilnefndir.

Í kvennaflokki eru þær Nora Mörk frá Noregi, Christina Neagu frá Rúmeníu, Nycke Groot frá Hollandi, Isabelle Gullden frá Svíþjóð og Kari Grimsbo frá Noregi tilnefndar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×