Erlent

Þrír handteknir vegna sýruárásarinnar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Lögreglan hefur birt skjáskot úr öryggismyndavélum.
Lögreglan hefur birt skjáskot úr öryggismyndavélum. breska lögreglan
Þrír menn hafa verið handteknir í tengslum við sýruárás sem framin var í Bretlandi um helgina. Fórnarlambið var þriggja ára drengur.

Ekki þykir fara á milli mála að ráðist hafa verið á drenginn. Hann hefur verið útskrifaður af sjúkrahúsi þar sem hann hlaut meðferð við alvarlegum brunasárum í andliti og á handleggjum. Ekki er vitað á þessari stundu hvernig sár hans munu gróa eða hvaða áhrif árásin mun hafa á líkama hans til frambúðar.

Mennirnir sem handteknir voru eru allir á þrítugsaldri en ekki er vitað hvað vakti fyrir þeim. Áður hafði 39 ára gamall karlmaður verið handtekinn í tengslum við málið og er hann enn í haldi lögreglunnar.

Drengurinn hafði setið í barnavagni þegar einhvers konar sýru eða öðru ætandi efni var „kastað eða sprautað í átt að honum,“ eins og lögreglan orðar það. Árásin er enn til rannsóknar en lögreglan hefur fengið fjölda ábendinga sem hún segir að hafi varpað ljósi á málið.

Árásin hefur vakið mikla reiði í Bretlandi og sagði þingmaðurinn Robin Walker meðal annars að áfallið eftir að fregnirnar bárust hafi verið algjört. „Hver sá sem getur framið slíka árás gegn barni er hreinlega fyrirlitlegur,“ sagði Walker.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×