Fótbolti

Þriggja marka seinni hálfleikur hjá Juventus

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paulo Dybala á ferðinni í kvöld.
Paulo Dybala á ferðinni í kvöld. Vísir/Getty
Juventus er á góðri leið inn í þriðja bikarúrslitaleikinn í röð á Ítalíu eftir 3-1 sigur á Napoli í fyrri undanúrslitaleik liðanna í kvöld.

Paulo Dybala skoraði tvö mörk úr vítaspyrnum og Gonzalo Higuaín var með það þriðja.

Juventus hefur orðið ítalskur bikarmeistari undanfarin tvö ár og hefur nú tveggja marka forskot í seinni leiki sem fer fram í Napoli.

Leikurinn í kvöld byrjaði þó ekki vel því José Callejón kom Napoli í 1-0 á 36. mínútu og þannig var staðan í hálfleik.

Juventus skoraði hinsvegar jöfnunarmarkið eftir aðeins tveggja mínútna leik í seinni hálfleiknum og bætti síðan við tveimur mörkum áður en yfir lauk.

Paulo Dybala jafnaði metin fyrir Juventus á 47. mínútu, Gonzalo Higuaín kom Juve í 2-1 á 64. mínútu með marki á móti sínum gömlu félögum og aðeins fimm mínútum síðar var Dybala búinn að skora sitt annað marki í leiknum.

Paulo Dybala hefur þar með skorað í öllum þremur bikarleikjum sínum á tímabilinu, samtals fjögur mörk og er alls með tólf mörk í öllum keppnum á leiktíðinni. Síðustu tíu mark hans hafa þó öll komið á heimavelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×