Enski boltinn

Þriggja marka fyrri hálfleikur dugði Arsenal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexis Sánchez skoraði tvö mörk í kvöld.
Alexis Sánchez skoraði tvö mörk í kvöld. Vísir/Getty
Arsenal komst upp að hlið Manchester City í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir 3-1 útisigur á Hull í kvöld en þetta var níundi sigur lærisveina Arsene Wenger í síðustu tíu deildarleikjum.

Arsenal-liðið skoraði öll þrjú mörkin sín í fyrri hálfleik en Síle-maðurinn Alexis Sánchez skoraði tvö þeirra. Sánchez hefur þar með skora 24 mörk í öllum keppnum á sínu fyrsta tímabili með Arsenal.

Aaron Ramsey var næstum því sparkaður út úr leiknum á 25. mínútu eftir takka-tæklingu frá Tom Huddlestone en velski miðjumaðurinn harkaði af sér og átti heldur betur eftir að svara fyrir sig á jákvæðan hátt.

Það var hinsvegar Alexis Sánchez sem kom Arsenal yfir í leiknum þegar hann skoraði beint úr aukaspyrnu á 29. mínútu eftir að hafa fiskað hana sjálfur. Boltinn hafði viðkomu í varnarveggnum og truflaði Steve Harper í markinu.

Aaron Ramsey  skoraði annað markið á 33. mínútu eftir að hafa fengið langa sendingu fram frá Santi Cazorla og lagði síðan upp þriðja markið fyrir  Alexis Sánchez í uppbótartíma fyrri hálfleiksins.

Hull gafst ekki upp og Stephen Quinn minnkaði muninn á 56. mínútu með skalla eftir sendingu frá Ahmed Elmohamady. Arsenal-menn vildu þá fá aukaspyrnu fyrir brot á Laurent Koscielny í aðdragandanum og höfðu nokkuð til síns máls. Fleiri urðu mörkin þó ekki og Arsenal fagnaði öruggum sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×