Skoðun

Þriðjungur frestar læknisheimsóknum – 1. maí 2014

Signý Jóhannesdóttir skrifar
Verkalýðshreyfingin vill samfélag jafnréttis og jafnra tækifæra. Við viljum samfélag þar sem öryggisnet velferðarkerfisins grípur okkur þegar áföll verða.

Einn grundvallarþáttur velferðar er gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Við Íslendingar höfum haft samfélagssáttmála um að öllum landsmönnum skuli tryggð besta heilbrigðisþjónusta sem völ er á. Þetta endurspeglast m.a. í markmiði laga um heilbrigðisþjónustu og stefnuskrám flestra stjórnmálaflokka. Vaxandi kostnaðarþátttaka sjúklinga í heilbrigðiskerfinu á undanförnum áratugum hefur unnið gegn þessu markmiði. Á síðustu þrjátíu árum hefur kostnaðarhlutdeild heimila í heilbrigðisþjónustu nær tvöfaldast og þau standa nú undir um 20% af öllum heilbrigðisútgjöldum.

Við þekkjum öll dæmi af tug- og jafnvel hundraða þúsunda króna reikningum sem sjúklingum er gert að greiða. Þessi kostnaður leggst þungt á mörg heimili. Þá er eftir að bæta við kostnað þeirra sem búa fjarri þjónustunni og þurfa að sækja hana um langan veg.

Við sjáum aðvörunarljós blikka í tölum um fjölda þeirra sem fresta því að sækja sér nauðsynlega læknisþjónustu. Samkvæmt rannsókn Félagsvísindastofnunar frá 2013 frestaði tæplega þriðjungur landsmanna læknisheimsókn á síðustu sex mánuðum. Hlutfallið var enn hærra meðal lágtekjufólks og öryrkja. Það er verulegt áhyggjuefni hversu margir tilgreina há komugjöld og mikinn lyfjakostnað sem helstu ástæðu frestunar. Samkvæmt tölum frá Eurostat er mun algengara að Íslendingar sæki sér ekki nauðsynlega heilbrigðisþjónustu vegna kostnaðar en íbúar í nágrannalöndunum. Þetta ætti að vera stjórnvöldum umhugsunarefni þegar mótuð er stefna um gjaldtöku í heilbrigðisþjónustunni.

Heilbrigðisráðherra hefur raunar lýst því yfir að ekki standi til að lækka hlutdeild sjúklinga í heilbrigðiskostnaði en hefur jafnframt skipað nefnd um samræmt niðurgreiðslukerfi fyrir alla heilbrigðisþjónustu, sem er vel. Í ljósi ummæla ráðherrans má þó ætla að hugmyndin sé einkum tilfærsla á kostnaði milli hópa, sem þýðir enn hærri gjaldtaka í heilbrigðiskerfinu fyrir allan meginþorra almennings. Niðurstaðan má aldrei verða sú að við sættum okkur við samfélag þar sem hluti þjóðarinnar þarf að neita sér um heilbrigðisþjónustu þegar heilsan bilar. Við viljum samfélag fyrir alla.




Skoðun

Sjá meira


×