Innlent

Þriðjungur flúinn vegna myglunnar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Húsnæði Íslandsbanka á Kirkjusandi er illa farið vegna myglusvepps.
Húsnæði Íslandsbanka á Kirkjusandi er illa farið vegna myglusvepps. vísir/pjetur
Hundrað og fimmtíu starfsmenn af þeim 400 starfsmönnum sem störfuðu í höfuðstöðvum Íslandsbanka á Kirkjusandi hafa verið færðir tímabundið á aðrar starfsstöðvar. Það eru 38 prósent starfsmanna. Ástæðan er rakaskemmdirnar í húsinu. Fólk, sem hefur fundið fyrir einkennum myglu, hefur verið flutt á starfsstöðvar bankans á Suðurlandsbraut, Lynghálsi og á Granda.

Edda Hermannsdóttir, samskiptastjóri Íslandsbanka, segir að stjórnendur Íslandsbanka fundi reglulega og fylgist vel með stöðunni og líðan starfsfólks.

Ekki hefur enn verið tekin ákvörðun um það hvort húsnæði bankans á Kirkjusandi verður rifið. Starfsmenn bankans byrja að flytja í Norðurturninn í Smáralind í lok nóvember og eftir það verður tekin ákvörðun um framtíð hússins á Kirkjusandi. Þegar Íslandsbanki birti uppgjör fyrir fyrri helming ársins kom fram að virði húsnæðisins hefði verið fært niður um 1,2 milljarða vegna skemmdanna.

„Við tókum þessa lækkun á það núna af því að við vitum ekkert hvað verður um húsið,“ sagði Birna Einarsdóttir bankastjóri við Fréttablaðið um niðurfærsluna og bætti við að það myndi kosta miklar fjárhæðir að gera við húsið. Birna lagði áherslu á að Reykjavíkurborg fari með skipulagsvaldið og húsið yrði ekki rifið án samráðs við borgar­yfirvöld.

Fram hefur komið að nýtt útibú Íslandsbanka verði opnað í Norðurturninum í nóvember. Hefur vinna við sameiningu útibúa staðið yfir í nokkra mánuði. Útibúin í Þarabakka, á Digranesvegi og Garðatorgi verða sameinuð í eitt útibú.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×