Viðskipti innlent

Þriðju verðlaunin í hús

Guðrún Jóna Stefánsdóttir skrifar
Feðgarnir Guðmundur og Einar Logi á matreiðslunámskeiði í Taílandi, þar sem þeir lærðu að
töfra fram taílenska rétti. Fjölskyldan fylgdi Guðmundi til Taílands, þar sem hann vann að
hönnun vefsíðunnar Mekong Tourism.
Feðgarnir Guðmundur og Einar Logi á matreiðslunámskeiði í Taílandi, þar sem þeir lærðu að töfra fram taílenska rétti. Fjölskyldan fylgdi Guðmundi til Taílands, þar sem hann vann að hönnun vefsíðunnar Mekong Tourism. Mynd/Lilja Katrín
„Það er mikill heiður að vinna svona stór verðlaun, ég er virkilega þakklátur,“ segir Guðmundur R. Einarsson vefhönnuður en hann vann á dögunum þriðju alþjóðlegu verðlaunin fyrir vefsíðuna Mekong Tourism sem er sérhæfð ferðaþjónustusíða fyrir lönd sem eiga landamæri að Mekong-fljóti í Suðaustur-Asíu

„Vefsíðan hlaut ITB Asia-verðlaunin í flokki Responsible Tourism Website en verðlaunin eru afhent af TravelMole netsamfélagi fyrir ferðabransann,“ segir hann, en þetta var í níunda sinn sem ITB Asia verðlaunin voru afhent. Um tíu þúsund aðilar úr ferðamannabransanum frá 110 löndum voru viðstaddir verðlaunaafhendinguna sem fór fram á sýningunni ITB Asia í Singapúr.

Óhætt er að segja að þessi verðlaun séu frábær viðbót í verðlaunasafnið en vefsíðan Mekong Tourism, sem unnin var fyrir ferðaþjónustubransann í Kambódíu, Kína, Laos, Myanmar, Taílandi og Víetnam, vann HSMAI Adrian-verðlaunin um síðustu áramót fyrir nýstárlega vefsíðuhönnun og framúrskarandi markaðsstarf. Verðlaunin eru ein þau virtustu í heiminum þegar kemur að ferðaþjónustuiðnaðinum og veitt af Hospitality Sales & Marketing Association International, alþjóðlegum ferðaþjónustusamtökum. Síðan fékk einnig verðlaun sem besta vefsíðan á árlegu PATA Gold-verðlaunahátíðinni sem haldin var í Indónesíu.

„Mekong Tourism-verkefnið var mikil og góð reynsla fyrir mig og síðan þá hef ég unnið að mörgum íslenskum vefsíðum í ferðaþjónustubransanum, meðal annars fyrir Saga Travel og Laxnes hestaleigu. Ég hef viðað að mér mikilli þekkingu í ferðamannabransanum og get boðið ferðaþjónustuaðilum upp á frábæra lausn er varðar vefinn,” segir Guðmundur.

Fjölskyldan ætlaði upprunalega að vera í eitt ár í Taílandi vegna verkefnisins en sökum óvæntrar óléttu eiginkonu Guðmundar, Lilju Katrínar Gunnarsdóttur, var ákveðið að stytta dvölina í þrjá mánuði. Á þessum þremur mánuðum vann Guðmundur ötullega að Mekong Tourism á milli þess sem hann flakkaði um Taíland.

„Allt ferlið hefur verið mikið ævintýri. Þegar ljóst var að ég myndi vinna þetta verkefni og endurhanna þessa vefsíðu ákvað ég að láta hjartað og ævintýraþrána ráða för og flutti út til Taílands ásamt allri fjölskyldunni minni,“ segir hann þakklátur.

Guðmundur rekur fyrirtækið Vefgerðina, þar er hægt að skoða fleiri verk eftir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×