Erlent

Þriðji Vesturlandabúinn tekinn af lífi

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Úr myndbandinu sem sagt er sýna aftöku Davids Haines í Sýrlandi.
Úr myndbandinu sem sagt er sýna aftöku Davids Haines í Sýrlandi. fréttablaðið/AP
„Þeir eru engir múslimar, þeir eru skrímsli,“ sagði David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, um liðsmenn Íslamska ríkisins sem í gær birtu myndband sem sagt var sýna afhöfðun bresks hjálparstarfsmanns, David Haines að nafni.

Haines er þriðji Vesturlandabúinn sem samtökin taka af lífi í Sýrlandi með þessari aðferð, og birta myndband því til staðfestingar. Cameron hefur ekki kynnt neinar hernaðaraðgerðir gegn Íslamska ríkinu, en Bandaríkin hafa undanfarið verið að safna liði á meðal vestrænna og arabískra stjórnvalda. Bandaríkin hafa sjálf gert fjölmargar loftárásir á vígasveitirnar síðustu vikurnar. Arababandalagið hefur einnig samþykkt að hefja hernað gegn Íslamska ríkinu.

Tyrkland hyggst hins vegar standa hjá, enda sjá tyrknesk stjórnvöld sér engan hag í að styðja við Kúrda í norðurhluta Íraks. Kúrdar í Írak og Tyrklandi hafa lengi viljað stofna sjálfstætt ríki, en Tyrkir mega ekki til slíks hugsa.

Vígasveitir Íslamska ríkisins, sem hafa á sínu valdi stór svæði bæði í Sýrlandi og Írak, hafa eflst mjög á síðustu vikum og mánuðum.

Bandarískir leyniþjónustumenn fullyrða að samtökin þurfi ekki lengur að treysta á fjárframlög frá auðkýfingum við Persaflóann heldur séu þau farin að þéna meira en þrjár milljónir Bandaríkjadala á dag með olíusmygli, mansali, þjófnaði og fjárkúgunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×