Enski boltinn

Þriðji stjóri Gylfa sem er rekinn á aðeins þrettán mánuðum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. Vísir/Getty
Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Everton spila ekki lengur undir stjórn hollenska knattspyrnustjórans Ronaldo Koeman. Hann þurfti að taka pokann sinn í dag.

Gylfi ætti að vera farinn þekkja það vel að stjóri hans sé rekinn því þetta er í þriðja sinn á þrettán mánuðum og í fjórða sinn á innan við tveimur árum sem knattspyrnustjóri Gylfa er rekinn.

Gylfi náði aðeins að spila í tvo mánuði undir stjórn Ronaldo Koeman sem keypti hann frá Swansea City í lok ágúst. Everton situr í fallsæti eftir níu umferðir með aðeins átta stig og sjö mörk skoruð.

Lokaleikurinn var 5-2 tap á heimavelli á móti Arsenal um helgina en Everton hefur aðeins fagnað sigri í einum deildarleik frá því í ágúst.

Á síðustu leiktíð spilaði Gylfi fyrir fjóra stjóra hjá Swansea City. Tímabilið byrjaði undir stjórn Francesco Guidolin sem var rekinn 3. október.

Þá tók Bandaríkjamaðurinn Bob Bradley við en hann var rekinn í lok desember.

Alan Curtis stýrði þá Swansea-liðinu tímabundið þar til að Paul Clement var ráðinn knattspyrnustjóri í byrjun janúar.

Tímabilið á undan var Garry Monk rekinn sem knattspyrnustjóri Swansea í desember 2015. Gylfi náði að spila í 570 daga fyrir hann. Gylfi lék einnig með Tottenham þegar André Villas-Boas var rekinn í desember 2013.



Fjórir knattspyrnustjórar Gylfa hafa því misst starfið sitt á aðeins 22 mánuðum eins og sjá má á listanum hér fyrir neðan.

9. desember 2015 - Garry Monk, Swansea (stjóri Gylfa í 570 daga)

3. október 2016 - Francesco Guidolin, Swansea (stjóri Gylfa í 259 daga)

27. desember 2016 - Bob Bradley, Swansea (stjóri Gylfa í 85 daga)

23. Október 2017 - Ronaldo Koeman, Everton (stjóri Gylfa í 68 daga)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×