Enski boltinn

Þriðja þrennan á árinu | Sjáðu mörkin hans Harry

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Harry Kane fór heim með boltann eftir leik Tottenham og Stoke City í ensku úrvalsdeildinni í gær. Spurs vann leikinn 4-0 og skoraði Kane þrjú fyrstu mörk liðsins í leiknum og það tók hann aðeins 23 mínútur að skora þrennuna.

Þetta var önnur þrenna Kanes á einni viku en hann skoraði öll þrjú mörk Spurs í 0-3 útisigri á Fulham í 16 liða úrslitum ensku bikarkeppninnar á sunnudeginum fyrir viku. Þetta er jafnframt þriðja þrenna hans á árinu 2017 en hann gerði einnig þrjú mörk í 4-0 sigri á West Brom 12. janúar síðastliðinn.

Með sigrinum á Stoke komst Spurs upp í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Sigurinn var líka mikilvægur eftir vonbrigðin í Evrópudeildinni á fimmtudaginn. Kane skoraði þá sjálfsmark í 2-2 jafntefli við Gent á Wembley. Belgarnir unnu fyrri leikinn og fóru áfram, 3-2 samanlagt.

Kane er nú orðinn markahæstur í ensku úrvalsdeildinni ásamt Romelu Lukaku, leikmanni Everton, og Arsenal-manninum Alexis Sánchez en þeir hafa allir skorað 17 mörk. Kane, sem varð markakóngur deildarinnar í fyrra, hefur reyndar þurft færri leiki til að ná þessum 17 mörkum en Lukaku og Kane.

Uppgangur Kanes á síðustu rúmu tveimur árum er magnaður en þessi öflugi framherji er búinn að skora 63 mörk í 93 leikjum á síðustu þremur tímabilum í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×