Körfubolti

Þriðja tapið í röð hjá Martin og félögum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Hermannsson.
Martin Hermannsson. vísir/ernir
Charleville-Mézières virðist ekki vera sama lið á árinu 2017 og liðið var fyrir áramót.

Charleville-Mézières steinlá á móti Poitiers í frönsku b-deildinni í körfubolta í kvöld, 90-74, og var þetta þriðja tap liðsins í röð.

Charleville-Mézières var á útivelli en liðið var ellefu sætum ofar en Poitiers í töflunni fyrir leikinn.

Íslenski landsliðsbakvörðurinn Martin Hermannsson var með 17 stig, 5 stoðsendingar og 6 fiskaðar villur í leiknum. Martin hitti úr 6 af 11 skotum sínum þar af 2 af 4 þriggja stiga skotum.

Martin var næststigahæstur hjá liði Charleville-Mézières og enginn í liðnu gaf heldur fleiri stoðsendingar.

Charleville-Mézières vann tíu af fyrstu þrettán deildarleikjum tímabilsins en hefur nú tapað fjórum af síðustu fimm leikjum sínum.

Jay Threatt, fyrrum leikmaður Snæfells, var með 14 stig og 7 stoðsendingar fyrir Poitiers-liðið í þessum leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×