Innlent

Þriðja síðasta Þjóðhátíð Herjólfs

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Herjólfur.
Herjólfur. Vísir/Óskar P. Friðriksson
Samið hefur við norska fyrirtækið Polarkonsult A/S um hönnun nýrrar Vestmannaeyjaferju sem mun leysa Herjólf af hólmi. Hönnun á að ljúka í febrúarlok á næsta ári en reiknað er með að smíði ferjunnar ljúki síðla árs 2016. Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar.

Vegamálastjóri Hreinn Haraldsson skrifaði undir samninginn 28. júlí síðastliðinn. Samningsupphæðin er rúmlega 800 þúsund evrur eða um 124 milljónir króna. Innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, heimilaði í febrúar að auglýsa útboð um hönnun ferjunnar. Um það sá starfshópur um hönnun og smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju. Ríkiskaup annaðist auglýsingu útboðsins sem fór fram á Evrópska efnahagssvæðinu. Þrjú tilboð bárust en tvö þeirra reyndust ógild og því þriðja var hafnað þar sem það var langt yfir kostnaðaráætlun.

Að tillögu ráðgjafa starfshópsins, Jóhannesar Jóhannessonar skipaverkfræðings, voru teknar upp samningaviðræður við norska fyrirtækið Polarkonsult A/S sem átti eina gilda tilboðið í hönnun ferjunnar. Samningurinn sem nú hefur verið undirritaður byggir á endurnýjuðu tilboði Polarkonsult og er samningsupphæðin svipuð og upphafleg kostnaðaráætlun gerði ráð fyrir að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar. Undirverktaki er Force Technology A/S.

Reiknað er með að smíði skipsins verði boðin út í febrúar 2015 og henni verði lokið síðla árs 2016. Samkvæmt þeirri áætlun mun Herjólfur ferja gesti til og frá Þjóðhátíð í síðasta skipti sumarið 2016.

Líkt og fram kemur í frétt á heimasíðu Polarkonsult þá er sérstæða verksins nokkur á alþjóða vísu þar sem veðuraðstæður utan við Landeyjahöfn eru erfiðar vegna mikillar öldu af hafi og smærri öldu af ströndinni auk sterks straums við mynni hafnarinnar. Þá er svo sem kunnugt er dýpi lítið, getur verið um 4,5 m, og því þörf á grunnristri ferju sem þarf þess utan að geta athafnað sig í 3,5 m hárri öldu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×