Íslenski boltinn

Þriðja liðið: Hann skiptir meira máli en fótbolti | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
„Mótið byrjaði bara illa hjá mér og ég held að það hafi bara verið út af veseninu með strákinn. Hann var með hálfklofinn hrygg og ég var með hann á sjúkrahúsinu,“ sagði Pepsi-deildar dómarinn ÞóroddurHjaltalín Jr. í sjónvarpsþættinum Þriðja liðið sem frumsýndur var á Stöð 2 Sport í gærkvöldi.

Þóroddur átti erfitt uppdráttar tímabilið 2012 en var valinn til að dæma bikarúrslitaleikinn sem ekki allir voru sammála um að væri rétt ákvörðun. Það voru ástæður fyrir því að hann var ekki rétt stilltur í byrjun móts og ræddi hann ástæður þess á einlægum nótum í þættinum.

„Við vissum það alveg frá fæðingu að hann þyrfti að fara í aðgerð en við vissum ekkert hvenær. Síðan kemur að því að hann þarf að fara í maí í aðgerð. Þá vissi ég samstundis að ég myndi missa úr fyrstu umferðirnar í mótinu og yrði ekki klár,“ sagði Þóroddur.

Þóroddur lýsti því hvernig hann væri nánast miður sín yfir því að geta ekki dæmt - fannst eins og hann væri að bregðast sínum mönnum. Dómarinn áttaði sig þó fljótt á því að strákurinn væri aðalatriðið. „Hann skiptir meira máli en fótbolti,“ sagði Þóroddur.

„Við komum heim á laugardegi og ég átti leik á sunnudegi. Maður heldur alltaf að maður sé bestur í heimi og ekkert hafi áhrif á mann. Ég hélt bara að ég væri í góðu standi.“

Þóroddur dæmdi fyrst leik ÍA og Keflavíkur sem gekk ágætlega en í kjölfarið komu nokkrir leikir sem voru slakir af hans hálfu. Hann var t.a.m. gagnrýndur af ÞórðiÞórðarsyni eftir leik Vals og ÍA á Vodafone-vellinum.

„Fyrstu viðbrögð eru alltaf að kenna einhverju öðru um. Það er bara þannig. Maður fer og finnur einhverja ástæðu. Af hverju þarf þetta að gerast í leikjunum hjá mér? En það er ekkert þannig. Þegar þú ert farinn að dæma í efstu deild ræðurðu alveg við aðstæður þannig auðvitað var eitthvað að,“ sagði Þóroddur.

Eftir þrjá slaka leiki fór Þóroddur að vinna í sínum málum og átti svo frábæran leik þegar hann dæmdi viðureign Stjörnunar og KR á Samsung-vellinum í Garðabæ.

„Þú skalt ekki halda það að ég eigi ekki eftir að gera mistök. Ég á eftir að gera fullt af mistökum. Eina leiðin fyrir okkur til að hætta að gera mistök er að hætta að dæma.“

Brotið úr þættinum má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×