Sport

Þrenna hjá Usain Bolt þriðju Ólympíuleikana í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigurdansinn hjá jamaísku sveitinni.
Sigurdansinn hjá jamaísku sveitinni. Vísir/Getty
Jamaíkamaðurinn Usain Bolt vann í nótt þriðju gullverðlaun sín á Ólympíuleikunum í Ríó og hefur nú unnið gullþrennu á þremur leikum í röð en því hefur enginn annar náð í sögu Ólympíuleikanna.

Usain Bolt hafði áður unnið 100 metra og 200 metra hlaupið í Ríó líkt og í Peking 2008 og í London 2012 en í nótt hjálpaði hann boðhlaupssveit Jamaíka að vinna 4 x 100 metra hlaupið.

Með því að vinna sín níundu gullverðlaun þá jafnaði hann afrek Finnans Paavo Nurmi og Bandaríkjamannsins Carl Lewis en þessir þrír eru núna sigursælustu frjálsíþróttamennirnir í sögu Ólympíuleikanna.

Aðeins einn íþróttamaður hefur nú unnið fleiri gullverðlaun á Ólympíuleikum en Usain Bolt en það er sundmaðurinn Michael Phelps sem er með 23 gull.

Jamaíska sveitin kom í mark á 37,27 sekúndum en Japan var í öðru sæti á 37,60 sekúndum sem er nýtt asískt met. Bandaríkjamenn voru þriðju í mark en þeir voru dæmdir úr leik eftir hlaupið fyrir ólöglega skiptingu.

Bronsverðlaunin fór því til Kanada sem setti nýtt landsmet og kom í mark á 37.64 sekúndum.

Sigursveit Jamaíka skipuðu þeir Asafa Powell, Yohan Blake, Nickel Ashmeade og Usain Bolt.

Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×