Fótbolti

Þrenna hjá Paulinho er Brassar rúlluðu yfir Úrúgvæ í toppslagnum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Paulinho fagnar.
Paulinho fagnar. vísir/getty
Brasilíska landsliðið í fótbolta er svo gott sem komið á HM 2018 í Rússlandi eftir afar glæsilegan og sannfærandi sigur á Úrúgvæ, 4-1, í toppslag undankeppninnar í Suður-Ameríku.

Miðjumaðurinn Paulinho, sem stuðningsmenn Tottenham muna eftir, eða vilja kannski gleyma sem fyrst, gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu fyrir Brassa sem lentu undir strax á 8. mínútu þegar Edinson Cavani kom heimamönnum yfir úr vítaspyrnu.

Paulinho, sem hefur spilað undanfarin tvö ár með Guangzhou Evergrande í Kína, jafnaði metin á 18. mínútu og kom Brössum yfir, 2-1, á 51. mínútu.

Neymar jók forskotið í 3-1 á 74. mínútu og Paulinho innsiglaði sjaldséða þrennu í uppbótartíma og frábær sigur Brasilíumanna staðreynd, 4-1.

Brassar eru með 30 stig eftir þrettán umferðir af 18 og eru á toppi riðilsins. Úrúgvæ er í öðru sæti með 23 stig. Argentína komst upp í þriðja sætið með lífsnauðsynlegum sigri á Síle, 1-0, og Kólumbía er í fjórða sætinu með 21 stig.

Fjögur efstu liðin fara beint á HM 2018 í Rússlandi en liðið sem hafnar í fimmta sæti fer í umspil um sæti á HM.

Lionel Messi var hetja Argentínumanna á móti Síle en hann skoraði eina markið úr vítaspyrnu á 16. mínútu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×