Fótbolti

Þreföld draumabyrjun Draxler hjá Paris Saint-Germain

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Julian Draxler.
Julian Draxler. Vísir/Getty
Þjóðverjinn Julian Draxler hefur heldur betur stimplað sig inn hjá franska félaginu Paris Saint-Germain.

Frakkarnir keyptu hann frá VfL Wolfsburg á Aðfangadag og hann var síðan löglegur í fyrsta leik liðsins á nýju ári.

Julian Draxler var orðaður við Arsenal í vetur en hann bætti í hóp þeirra mörgu frábæru leikmanna sem Arsene Wenger hefur misst af á undanförnum árum.

Í stað þess fékk hann nýjan samning við Paris Saint-Germain í jólagjöf og franska liðið sér örugglega ekki eftir því núna.

Julian Draxler skoraði eitt marka liðsins í 4-0 stórsigri Paris Saint-Germain á Barcelona í Meistaradeildinni í gær en í framhaldinu er það fátt sem kemur í veg fyrir að franska liðið spili í átta liða úrslitum keppninnar í ar.

Hann hefur þar með skorað í fyrsta leik með Paris Saint-Germain í þremur keppnum.

Fyrsti leikur Julian Draxler með Paris Saint-Germain var í franska bikarnum 7. janúar síðastliðinn en hann skoraði þá lokamarkið í 7-0 stórsigri á SC Bastia eftir að hafa komið inn á sem varamaður á 58. mínútu.

Viku síðar spilaði Julian Draxler fyrsta leikinn með Paris Saint-Germain í frönsku deildinni og skoraði þá eina markið í 1-0 sigri á Stade Rennais.

Í gær lék hann síðan sinn fyrsta leik með Paris Saint-Germain í Meistaradeildinni og skoraði þá annað mark liðsins í 4-0 stórsigri á Barcelona.

Julian Draxler tókst ekki að skora í fjórtán leikjum meða VfL Wolfsburg í öllum keppnum fyrir áramót en hefur nú skorað 5 mörk í fyrstu 9 leikjum sínum í öllum keppnum með Paris Saint-Germain.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×