Bílar

Þrefaldur sigur hjá Kia

Finnur Thorlacius skrifar
Hin nýja kynslóð Kia Rio sem kemur brátt til sölu hjá Öskju.
Hin nýja kynslóð Kia Rio sem kemur brátt til sölu hjá Öskju.
Kia vann þrefaldan sigur á iF Design Awards 2017 sem þykja ein virtustu hönnunarverðlaun sem veitt eru í heiminum. Kia vann sigur í þremur flokkum fyrir bíla sína Kia Niro, Kia Optima Sportswagon og hinn glænýja Kia Rio. Kia hefur þar með unnið til 12 iF Design Awards verðlauna á síðustu 8 árum fyrir framúrskarandi hönnun á bílum sínum.

,Þessi nýjustu iF Design Awards verðlaun eru mikil viðurkenning fyrir okkar frábæru hönnuði sem starfa víða um heim. Allar þrjár bíltegundirnar eru unnar í náinni samvinnu hönnuða okkar í hönnunarstöðvum Kia í Suður-Kóreu, Þýskalandi og í Bandaríkjunum og eru mjög mikilvægar fyrir Kia. Með Niro og Optima Sportswagon færir Kia sig inn á ný markaðssvæði og hefur þegar náð sterkri stöðu þar með hugvitssamlegri og fallegri hönnun.

Með nýrri kynslóð Kia Rio, sem fer í sölu nú á næstunni, kemur söluhæsti bíll Kia fram með talsvert breyttri hönnun og karakter og verður spennandi að sjá hvaða viðtökur hann fær," segir Peter Schreyer, forstjóri og yfirhönnuður Kia Motors. ,,Þetta er að sjálfsögðu frábær árangur hjá Kia að vinna þrefaldan sigur á iF Design Awards og undirstrikar enn hversu vel heppnuð hönnun Kia bílanna er.

Við stefnum á að frumsýna nýjan Kia Rio í lok mars, en þetta er fjórða kynslóð Rio og mjög spennandi bíll. Hann er afar mikilvægur fyrir Kia og við hjá Öskju bíðum spennt eftir því að geta boðið hann til sölu. Rio er okkar söluhæsti bíll undanfarin ár og þriðji söluhæsti bíll Kia í Evrópu. Þetta er einn rúmbesti og best útbúni bíllinn í sínum stærðarflokki sem er söluhæsti flokkurinn í allri Evrópu," segir Þorgeir Pálsson, sölustjóri Kia hjá Bílaumboðinu Öskju.






×