Erlent

Þóttist vera í dái í tvö ár til að forðast lögsókn

Samúel Karl Ólason skrifar
Umrædda mynd fann lögreglan í Wales af Alan Knight gangandi um Tesco.
Umrædda mynd fann lögreglan í Wales af Alan Knight gangandi um Tesco. Vísir/AP
Breskur maður játaði í vikunni að hafa svikið aldraðan nágranna sinn um 40 þúsund pund og að hafa þóst vera í dái í tvö ár til að forðast lögsókn. Eiginkona Alan Knight hafði í tvö ár haldið því fram að hann væri lamaður og í dái. Þar til lögreglan fann myndbandsupptöku af honum og konu sinni gangandi um Tesco verslun.

Hann hafði stolið 40 þúsund pundum eða tæpum 8 milljónum króna af reikningi nágranna síns sem var með alzheimer. Þegar lögreglan hóf rannsókn sína þóttist Alan vera lamaður og í dái eftir að hafa hlotið alvarlega hálsáverka.

„Við höfum gengið í gegnum helvíti og erum enn að ganga í gegnum helvíti,“ sagði Helen Knight, eiginkona hans, við fjölmiðla í Wales.

Upp komst um svikin eftir að lögreglu varð kunnugt um að greiðslukort hans hafi verið notað í Tesco verslun. Þá fundu lögreglumenn öryggiskerfisupptökur af Alan gangandi um verslunina með konu sinni og keyrandi.

Þá hafði réttarhöldum yfir Alan verið frestar tvisvar sinnum.

Eftir að þeim hjónum var tilkynnt að nú yrði réttað yfir honum hvort sem hann mætti eða ekki, mætti Alan í dómsal í síðustu viku. Þá var hann í hjólastól og með hálskraga. Eftir að saksóknarar sýndu honum upptökur frá versluninni játaði hann á sig 19 ákæruliði.

Eiginkona hans hefur þó ekki verið ákærð.

Dómarinn sagði Alan vera einstaklega hæfileikaríkan og ákveðinn leikara og að þau einkenni sem hann hefði leikið væru ekki til staðar.

Á vef BBC má sjá myndir af Alan sem hann og kona hans tóku, sem áttu að sanna að Alan væri í dái.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×