Innlent

Þorvaldur Davíð efast um að það sé gott að vera Íslendingur

Birgir Olgeirsson skrifar
Þorvaldur Davíð.
Þorvaldur Davíð.
Leikarinn Þorvaldur Davíð Kristjánsson leggur til að námsmenn erlendis taki höndum saman og leiti réttar síns vegna ákvörðunar stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna að skera niður framfærslu námsmanna erlendis síðasta vetur.

Þetta segir Þorvaldur Davíð í grein sem hann skrifar í Fréttablaðið í dag sem fyrrverandi formaður sambands íslenskra námsmanna erlendis. Hann segir skerðingu til námsmanna síðasta vetur hafa náð hátt upp í tíu prósent á sumum svæðum og segir hann þessa lækkun hafa átt sér stað án nokkurra útreikninga henni til stuðnings.

Námsmenn ósáttir

„Fjölmargir námsmenn erlendis voru ósáttir við þennan niðurskurð og kröfðust svara en engin almennileg svör komu frá stjórn LÍN,“ skrifar Þorvaldur Davíð sem fer hörðum orðum um stjórnvöld í þessari grein  en hann segir það vera skoðun sína að íslenskir námsmenn eigi alveg jafn mikið tilkall til þess að sækja sér menntun utan landsteinanna og hér heima. „Þá sérstaklega í ljósi þess að Ísland er lítið eyland í Norður-Atlantshafi og það er nauðsynlegt fyrir fámenna þjóð að auka menntunarstig sitt og víðsýni með því að styðja við bakið á þeim sem hyggjast nema erlendis,“ skrifar Þorvaldur Davíð.

Hann segir að flestir þeirra sem fara í nám til útlanda skili sér heim og þurfi engar sérstakar hótanir frá stjórnvöldum svo þeir geri það og nefnir Þorvaldur í því samhengi ummæli Vigdísar Hauksdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, þar sem hún lagði til að leggja álag á íslenska námsmenn sem ílengdust erlendis svo þeir skili sér heim til Íslands.

Efast um að það sé gott að vera Íslendingur

„Nú hef ég fylgst agndofa með stjórnvöldum taka ákvarðanir sem fær mig til þess að spyrja margra spurninga um hvert við stefnum sem þjóð. Viljum við búa í landi þar sem heilbrigðis- og menntakerfi er ekki í lagi? Viljum við í alvöru ekki styðja hvert annað við að búa til betra samfélag? Miðað við ákvarðanir stjórnvalda og hvernig komið er fyrir almennum mannréttindum á Íslandi er snerta menntunar- og heilbrigðismál þá set ég stórt spurningarmerki við þá fullyrðingu að það sé gott að vera Íslendingur.“

Lestu greinina í heild hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×