Enski boltinn

Þorvaldur: Ásgeir og Arnór spiluðu með stærri liðum en Gylfi og unnu titla

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson hefur spilað vel að undanförnu fyrir Swansea og virðist vera að komast í gírinn, en hann skoraði eina mark liðsins í 2-1 tapi gegn Manchester United um síðustu helgi.

Gylfi Þór er búinn að skora þrjú mörk á tímabilinu og gefa þrjár stoðsendingar en á sama tíma í fyrra var hann búinn að skora þrjú mörk og gefa átta stoðsendingar.

Sjá einnig:Gylfi Þór fékk hæstu einkunn Swansea á Old Trafford

„Þetta er ekki dæmigert Gylfa-mark. Hann skorar ekki mörg með skalla en þarna er hann klókur. Hann var virkilega góður í þessum leik og í leiknum á undan. Í síðustu þremur leikjum hefur hann verið virkilega góður og virðist vera finna sitt gamla form,“ sagði Arnar Gunnlaugsson um Gylfa í Messunni á Stöð 2 Sport 2 HD í gærkvöldi.

Hjörvar Hafliðason, Messustjóri, benti á það að Gylfi væri á síðastliðnum 18 mánuðum búinn að skora á móti Manchester United í tvígang, Arsenal, Liverpool og Tottenham. Honur líður því vel í stóru leikjunum.

Hjörvar sagði svo að Gylfi hefði gert það sem aðrir bestu leikmenn Íslandssögunnar gerðu aldrei, en það er að koma Íslandi á stórmót. Nefndi hann þar til menn á borð við Arnór Guðjohnsen, Eið Smára og Ásgeir Sigurvinsson.

Gylfi var besti leikmaður íslenska landsliðsins í undankeppni EM 2016, en hann skoraði sex mörk og var valinn í úrvalsliðs undankeppninnar.

„Hann var lykilmaðurinn ásamt nokkrum öðrum að koma okkur áfram á EM. Munurinn á honum og svo Arnóri og Ásgeiri er að þeir spiluðu fyrir stærri lið og unnu titla,“ sagði Þorvaldur Örlygsson um samanburðinn á þessum fótboltasnillingum.

Alla umræðuna þar sem einnig er rætt um kjör íþróttamanns ársins má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×