Íslenski boltinn

Þorsteinn Már lánaður til Ólafsvíkur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Þorsteinn Már Ragnarsson mun styrkja Ólsara mikið.
Þorsteinn Már Ragnarsson mun styrkja Ólsara mikið. vísir/valli
Þorsteinn Már Ragnarsson, framherji KR í Pepsi-deild karla í fótbolta, verður lánaður til Víkings Ólafsvíkur út tímabilið, samkvæmt heimildum Vísis.

Mörg lið í úrvalsdeildinni hafa áhuga á að fá Þorstein í sínar raðir, en hann hefur aðeins byrjað tvo leiki fyrir KR í Pepsi-deildinni og komið við sögu í níu af tólf leikjum liðsins.

Þorsteinn þekkir vel til hjá Ólsurum, en hann kom til KR frá Ólafsvík eftir að skora sex mörk í 18 leikjum í 1. deildinni 2011.

Árið áður skoraði hann 18 mörk í 21 leik í 2. deildinni þegar Ólsarar unnu hana án þess að tapa svo mikið sem einum leik.

Þorsteinn Már hefur spilað 58 deildar- og bikarleiki fyrir KR og skorað í þeim níu mörk.

Þetta er mikill liðsstyrkur fyrir Ólsara sem eru í baráttunni um sæti í Pepsi-deild karla. Þeir eru sem stendur í sjötta sæti eftir tólf umferðir, en þó aðeins tveimur stigum frá ÍA sem er í öðru sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×