Erlent

Þorsteinn fer úr Kraganum og fer fram í Reykjavík norður

Atli Ísleifsson skrifar
Þorsteinn Sæmundsson þingmaður Framsóknarflokksins.
Þorsteinn Sæmundsson þingmaður Framsóknarflokksins. Vísir
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, mun sækjast eftir 1. sæti á framboðslista Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður í næstu alþingiskosningum.

Tvöfalt kjördæmisþing Framsóknar verður haldið í Reykjavík í ágúst.

Í tilkynningu frá Þorsteini segir að ákvörðun hans sé tekin vegna hvatningar sem hann hafi fengið frá Framsóknarmönnum í Reykjavík, en hann var þriðji maður á lista Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi í kosningunum 2013 á eftir Eygló Harðardóttur og Willum Þór Þórssyni.

„Einnig hefur brotthvarf tveggja reyndra þingmanna úr kjördæminu áhrif á ákvörðun mína en brýnt er að fylla það skarð sem þeir láta eftir. Ég mun senda kjörstjórn flokksins í Reykjavík tilkynningu um framboð mitt innan nokkurra daga,“ segir Þorsteinn.

Vísar hann þar til þingmannanna Vigdísar Hauksdóttur og Frosta Sigurjónssonar sem leiddu lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur í síðustu þingkosningum og hafa bæði tilkynnt að þau sækist ekki eftir endurkjöri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×