Lífið

Þorir þú að vera fatlaður?

Baldvin Þormóðsson skrifar
Góðhjartaðir nemendur í Háskólanum í Reykjavík safna fyrir Reykjadal.
Góðhjartaðir nemendur í Háskólanum í Reykjavík safna fyrir Reykjadal. vísir/daníel
„Það er búið að vera mjög gefandi og skemmtilegt verkefni að skipuleggja þetta,“ segir Áslaug Ármannsdóttir en hún stendur að fjáröflunarviðburði í Laugardagshöll fimmtudaginn 24. apríl á milli 13 og 17.

Allur ágóði viðburðarins rennur óskertur til Reykjadals en það eru sumarbúðir fyrir fötluð börn og ungmenni.

„Við erum nemendur í mastersnámi í verkefnisstjórnun í Háskólanum í Reykjavík og hluti námsins er að gera verkefni sem hefur samfélagslega skírskotun,“ segir Áslaug en ásamt henni standa að viðburðinum þau Torfi Dan Sævarsson, Sigurður T. Valgeirsson, Gísli Rúnar Guðmundsson, Hafdís Huld Björnsdóttir og Rebekka Helga Aðalsteinsdóttir.

„Þetta er keppni sem fyrirtæki geta skráð sig í en keppt verður í tveimur íþróttagreinum,“ segir Áslaug. „Annars vegar hjólastólaspretti og hins vegar hjólastólahandbolta.“

Áslaug ítrekar að öllum sé velkomið að koma. „Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir verður kynnir og Adolf Ingi og Sigurbjörn Árni verða lýsendur íþróttagreinanna,“ segir Áslaug. „Solla Stirða verður einnig á staðnum ásamt Hvata hvolpi og síðan verður eitthvað af starfsfólki Reykjadals með stöðvar þannig að hægt verður að fá andlitsmálningu eða jafnvel að prófa að vera í hjólastól.“

Viðburðurinn er unninn í samstarfi við Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra en félagið rekur sumarbúðirnar í Reykjadal. Fyrirtæki geta skráð sig með því að senda tölvupóst á netfangið hvati@slf.is en einnig er hægt að styrkja starfsemina með því að hringja í eftirfarandi símanúmer: 902-0010 fyrir eitt þúsund krónur, 902-0030 fyrir þrjú þúsund krónur og 902-0050 eru fimm þúsund krónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×