Handbolti

Þórir fær sigursælan og reynslumikinn markvörð til baka í landsliðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrine Lunde er frábær markvörður.
Katrine Lunde er frábær markvörður. Vísir/Getty
Norski markvörðurinn Katrine Lunde ætlar að reyna að ná þriðja Ólympíugullinu á ferlinum en hún gefur aftur kost á sér í landslið Þóris Hergeirssonar.

Þórir ætlar að fara með þrjá markverði á Ólympíuleikana í Brasilíu og bætist Katrine Lunde í hóp þeirra Kari Aalvik Grimsbö og Silje Solberg sem hjálpuðu norska liðinu að verða heimsmeistari í desember síðastliðnum.  

„Það er allt orðið eðlilegt á ný. Ástríðan og áhuginn er til staðar sem aldrei fyrr og mér líður vel í skrokknum. Ég mun ekki þreytast þrátt fyrir margar æfingar," sagði Katrine Lunde við Norsk Telegrambyrå. Katrine Lunde spilaði síðast með norska landsliðinu á Evrópumótinu í Serbíu 2012.

Þórir má aðeins velja fjórtán leikmenn í Ólympíuhópinn sinn en ætlar að fara með fimmtán leikmenn til Ríó. Katrine Lunde mun samt sem áður keppa um að vera ein af tveimur markvörðum liðsins.

„Mitt markmið er að sjálfsögðu að komast í fjórtán manna hópinn," sagði Katrine Lunde  sem er orðin 35 ára gömul. Hún spilar nú sem atvinnumaður með rússneska liðinu Rostov-Don.

Katrine Lunde hefur unnið ellefu verðlaun með norska landsliðinu á stórmótum þar af Ólympíugull í Peking 2008 og í London 2012. Hún var valin besti markvörðurinn á ÓL 2008, EM 2008, EM 2010 og EM 2012.

Katrine Lunde hefur líka verið mjög sigursæl með félagsliðum sínum og er nú að reynda að vinna Meistaradeildina í fimmta sinn á ferlinum. Hún vann hana tvisvar með Viborg HK og tvisvar með ungverska liðnu Győri ETO KC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×