Handbolti

Þórir fær óvænt "framboð" frá reynslubolta fyrir ÓL í Ríó

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Norska handboltakonan Marit Malm Frafjord gefur nú aftur kost á sér í norska kvennalandsliðið í handbolta og vill ólm fá tækifæri til að vinna gull á Ólympíuleikunum í Ríó.

Marit Malm Frafjord hefur ekki spilað með norska landsliðinu frá 2012 en hún var fyrirliðinn norska liðsins á þremur stórmótum frá 2011 til 2012.

„Ég hef látið Þóri vita af því að ég sé tilbúinn að spila með landsliðinu á nýjan leik," sagði Marit Malm Frafjord við TV 2 í Noregi.  Þjálfari norska landsliðsins er einmitt Íslendingurinn Þórir Hergeirsson.

„Aðalástæðan er sú að í fyrsta sinn síðan á Ólympíuleikunum 2012 þá hef ég náð að klára heilt tímabil án þess að meiðast. Það er langt síðan að ég hef verið svona spennt fyrir landsliðinu," sagði hin þrítuga  Marit Malm Frafjord.

Hún hefur unnið tvö Ólympíugull, eitt HM-gull og þrjú EM-gull með norska landsliðinu á sínum ferli.

Heidi Löke er aðallínumaður norska liðsins en Marit Malm Frafjord á góða möguleika á því að vera varamaður hennar. Marit Malm Frafjord er líka mjög öflugur varnarmaður og var kletturinn í norsku vörninni á árum áður.  

Hún stóð sig mjög vel sem fyrirliði norska liðsins og þegar hún var með bandið þá unnu norsku stelpurnar bæði heimsmeistaratitil í Brasilíu 2011 og Ólympíugull í London 2012.

Marit Malm Frafjord leikur með Larvik HK og hefur verið hjá liðinu frá 2014. Hún var hinsvegar leikmaður danska liðsins Viborg HK þegar hún spilaði síðast með landsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×