Handbolti

Þórir Evrópumeistari með Noreg

Anton Ingi Leifsson skrifar
Þórir er að gera virkilega gott mót með Noreg.
Þórir er að gera virkilega gott mót með Noreg. Vísir/AFP
Þórir Heirgeirsson og lærimeyjar hans í norska kvennalandsliðinu í handbolta urðu Evrópumeistarar eftir sigur á Spánverjum í hörkuleik. Lokatölur urðu 28-25, en mótið fór fram í Ungverjalandi og Króatíu.

Spánverjarnir byrjuðu betur og voru 7-3 yfir eftir stundarfjórðung. Þær leiddu svo með tveimur mörkum í hálfleik og norska liðið var í stökustu vandræðum með spræka Spánverja í fyrri hálfleik.

Norska stálið byrjaði að bíta frá sér í þeim síðari og þær byrjuðu hálfleikinn af miklum krafti. Þær voru komnar þremur mörkum yfir þegar tæpar fimmtán mínútur voru búnar af síðari hálfleik.

Þær náðu svo að halda út og unnu að lokum þriggja marka sigur 28-25. Noregur er því Evrópumeistari 2014. Enn ein rósin í hnappagatið hjá Þóri Hergeirssyni, þjálfara liðsins, en þetta var sjöundi úrslitaleikurinn í röð á EM sem Þórir tekur þátt í með Noreg.

Linn-Kristin Riegelhuth Koren var markahæst í norska liðinu með tíu mörk. Næst kom Nora Mörk með sjö mörk. Hjá Spánverjum var Nerea Pena markahæst með tíu mörk, en næstar komu Carmena Martin og Alexandrina Cabral með fjögur hvor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×