Handbolti

Þórir: Ég átti aldrei von á þessu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Norsku stelpurnar fagna hér í leikslok.
Norsku stelpurnar fagna hér í leikslok. Vísir/AP
Þórir Hergeirsson, þjálfari Evrópumeistara Noregs, segir ungu stelpurnar í norska kvennalandsliðinu hafa þroskast mikið á meðan Evrópumótinu stóð en Þórir gerði norska liðið að Evrópumeisturum í annað skiptið í gær.

Þórir hefur verið að setja saman nýtt lið eftir mikil forföll á síðustu misserum og þá varð liðið ennfremur fyrir tveimur áföllum á lokasprettinum. Fyrst meiddist hægri skyttan Linn Sulland rétt fyrir mót og þá meiddist aðalmarkvörðurinn Kari Aalvik Grimsbö í fyrsta leik.

Þær sem komu í staðinn fyrir þær tvær stóðu sig hinsvegar frábærlega en markvörðurinn Silje Solberg og hægri skyttan Nora Mörk voru báðar valdar í úrvalslið mótsins.

„Það var frábær samheldni í liðinu og liðið þroskaðist mikið á þessu móti. Það voru margir ungir leikmenn að spila stór hlutverk og þær uxu mikið í gegnum mótið. Við trúðum á það sem við vorum að gera," sagði Þórir Hergeirsson við TV 2 Sporten eftir að gullið var í höfn.

„Fyrir Evrópumótið talaði ég um að það yrði stórt afrek að komast í undanúrslitin. Ég átti aldrei von á því að við stæðum uppi sem sigurvegarar," sagði Þórir.

„Þetta lið hefur nú unnið eitt gull en við ætlum að vinna fleiri gull. Við verðum samt að sjá til hvað framtíðin ber í skauti sér," sagði Þórir.

Karoline Dyhre Breivang, fyrirliði norska liðsins, lyftir hér bikarnum í gær.Vísir/AP

Tengdar fréttir

Svíþjóð tók bronsið

Svíþjóð vann Svartfjallaland í leiknum um þriðja sætið á Evrópumótinu í handbolta sem fram fer í Ungverjalandi og Króatíu, 25-23.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×