Handbolti

Þórhildur: Lykilatriði að spila góða vörn

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Þórhildur í baráttunni í úrslitakeppninni
Þórhildur í baráttunni í úrslitakeppninni Vísir/Ernir
Þórhildur Gunnarsdóttir skoraði mikilvæg mörk fyrir Stjörnuna í sigrinum gegn Gróttu í kvöld en hún líkt og liðsfélagar sínir höfðu engan áhuga á að fara strax í sumarfrí.

„Okkur langaði ekki í frí. Það er ekki í boði strax,“ sagði Þórhildur eftir leikinn í kvöld.

„Við mættum til leiks, annað en í síðasta leik og þá getum við verið kraftmiklar. Við vorum mjög áræðnar í kvöld og ég held að það hafi skilað okkur sigrinum.“

Stjarnan lék frábæran varnarleik í seinni hálfleik, ekki ósvipað og liðið gerði þegar það tryggði sér bikarmeistaratitilinn fyrr á leiktíðinni í úrslitum gegn Gróttu.

„Það er algjört lykilatriði að spila góða vörn. Þá kemur markmaðurinn með og við fáum þessi einföldu mörk úr hraðaupphlaupum.

„Það sýnir sig að þegar við mætum þá getum við verið virkilega góðar.

„Okkur líður vel hér. Við ætlum okkur að koma hingað á miðvikudaginn í oddaleik,“ sagði Þórhildur að lokum en liðin mætast í fjórða leiknum í Garðabæ á sunnudaginn þar sem Stjarnan þarf sigur til að tryggja sér oddaleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×