Innlent

Þorgerður ráðin Útvarpsleikhússtjóri

Atli Ísleifsson skrifar
Þorgerður E. Sigurðardóttir.
Þorgerður E. Sigurðardóttir. Mynd/RÚV
Þorgerður E. Sigurðardóttir hefur verið ráðin nýr Útvarpsleikhússtjóri og tekur hún við starfinu af Viðari Eggertssyni þann 1. desember.

Í tilkynningu frá RÚV segir að Þorgerður hafi víðtæka reynslu á sviði útvarpsmennsku, bókmennta og leiklistar. „Hún er hlustendum Rásar 1 vel kunnug þar sem hún hefur verið í framvarðasveit dagskrárgerðamanna Rásar 1 síðustu ár og haft umsjón með Víðsjá og Bók vikunnar.

Þorgerður er með BA-gráðu í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands og  BA-gráðu í leikmynda-og búningahönnun frá Nottingham Trent University auk þess sem hún hefur lagt stund á nám í heimilda- og fléttuþáttagerð fyrir útvarp. Nýr Útvarpsleikhússtjóri hefur verið stundakennari við Háskóla Íslands í almennri bókmenntafræði og við Listaháskóla Íslands í sviðslistadeild og listkennsludeild. Hún hefur setið í dómnefnd fyrir Íslensku bókmenntaverðlaunin, verið fulltrúi Sviðslistasambands Íslands í úthlutunarnefnd vegna starfslauna listamanna, gegnt dómnefndarstörfum við val á framlagi Íslands til norrænu leikritaverðlaunanna og starfað sem leiklistar- og bókmenntagagnrýnandi.

Þorgerður hefur verið virk í menningarlífi hér heima og hróður hennar hefur borist út fyrir landsteinana. Hún hefur m.a. tekið þátt í að skapa hljóðverk fyrir Listahátíð með hljóðgönguhópnum Innra eyranu sem tekur nú þátt í Evrópuverkefninu Urban Heat.

Í starfi Útvarpsleikhússtjóra mun Þorgerður, ásamt dagskrárstjóra Rásar 1, marka Útvarpsleikhúsinu stefnu til náinnar framtíðar, huga að sóknarfærum til að efla listgreinina sjálfa og nýta þau tækifæri sem eru í sjónmáli til að vinna henni veg og ekki síst koma auga á ný,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×