Innlent

Þörf á meiri þjálfun í meðferð skotvopna

Sérsveit lögreglunnar að störfum á vettvangi. Lögreglunemar fengu í fyrra í fyrsta skipti grunnþjálfun á MP5-byssu.
Sérsveit lögreglunnar að störfum á vettvangi. Lögreglunemar fengu í fyrra í fyrsta skipti grunnþjálfun á MP5-byssu.
Skólastjóri Lögregluskóla ríkisins, Karl Gauti Hjaltason, telur nauðsynlegt að auka þjálfun verðandi lögreglumanna í notkun skotvopna. „Það er af hinu góða að lögreglumenn hafi sem mesta færni í meðferð þeirra skotvopna sem lögreglan hefur yfir að ráða,“ segir hann.

Samkvæmt frétt norsku fréttaveitunnar NTB í síðustu viku fengu nemar í norska lögregluháskólanum 54 kennslustundir í þjálfun skotvopna árið 2007. Í fyrra voru kennslustundirnar orðnar 102,5. „Ég tel að við séum ekki komin á þann stað sem Norðmenn eru á með skotvopnaþjálfun lögreglunema en skotvopnaþjálfun lögreglunema í Lögregluskóla ríkisins hefur verið aukin á síðustu árum,“ segir skólastjórinn.

Karl Gauti Hjaltason
Lögreglunemar í grunnnámi hafa fengið sömu fræðslu og þarf til að standast almennt skotvopnanámskeið fyrir A-skotvopnaréttindi. Þeir hafa fengið kennslu í öllum helstu gildandi lögum og reglum um skotvopn og veiðar. Því til viðbótar hafa þeir fengið fræðslu um þær skammbyssur sem lögreglan hefur yfir að ráða auk verklegrar þjálfunar á þær. Samtals eru þetta um 15 kennslustundir, að sögn Karls Gauta.

Hann greinir frá því að í fyrra hafi lögreglunemar í fyrsta skipti fengið grunnþjálfun á MP5-byssu. „Þeir sóttu tveggja daga námskeið í fyrra sem útkallslið lögreglu sótti á vegum sérsveitar Ríkislögreglustjóra og skólans. Á námskeiðinu fengu nemendur frekari verklega skotþjálfun á skammbyssuna og MP5.“

MP5-hríðskotabyssa hefur verið hluti af þeim búnaði sem lögregla, það er sérsveitin, hefur haft yfir að ráða.

Karl Gauti tekur það fram að þjálfunin á þessu námskeiði veiti ekki heimild til notkunar MP5-vopna. „Á námskeiðinu voru vopnin eingöngu notuð sem hálfsjálfvirk vopn en ekki sem sjálfvirk vopn.“

Skólastjórinn segir að eitt af því sem hann muni leggja áherslu á næst þegar nemar verða teknir inn, að verkleg þjálfun í notkun skotvopna verði aukin. „Ég tel nauðsynlegt að menn geti brugðist við ef þörf krefur.“

Það er skoðun hans að bæði skynsamlegt og nauðsynlegt sé að skotvopn séu til taks í læstum skáp í lögreglubílum þar sem langar vegalengdir eru á næstu lögreglustöð. „Það sama á ekki við á höfuðborgarsvæðinu. Hér er sérsveit,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×