Handbolti

Þórey Rósa verður ekki með Vipers né íslenska landsliðinu næstu mánuði

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Þórey í leik með íslenska landsliðinu.
Þórey í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/Valli
Íslenska landsliðskonan Þórey Rósa Stefánsdóttir sem leikur með Vipers Kristiansand í handknattleik leikur ekki með liðinu næstu mánuði en hún á von á barni í febrúar. Þórey útilokar ekki að hún taki þátt í úrslitakeppninni í vor en hún geri ráð fyrir að vera klár í slaginn fyrir næsta tímabil.

Þórey Rósa sem var markahæsti leikmaður liðsins með 87 mörk á síðasta tímabili á von á barni í febrúar en þetta staðfesti hún í samtali við fvn.no í dag. Hún segist stefna á að koma til baka af fullum krafti á næsta tímabili en hún á aðeins tvö ár eftir af samningi sínum hjá Vipers.

„Þetta er afar spennandi en markmiðið er að sjálfsögðu að vera 100% klár fyrir næsta tímabil. Það er ólíklegt að ég nái úrslitakeppninni í ár en það væri alger bónus. Ég þarf að sjá hvernig líkami minn bregst við þessu.“

Þórey segist stefna á að halda sæti sínu í íslenska landsliðinu eftir barnsburðinn.

„Það hafa margar konur komið til baka enn betri eftir að hafa eignast barn og markmið mitt er að ná því. Ég mun æfa með Vipers eins lengi og ég get og ég mun aðstoða liðið eins og ég get þrátt fyrir að ég geti ekki leikið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×