Sport

Þórdís Eva komin í úrslit á EM í Tbilisi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórdís Eva Steinsdóttir.
Þórdís Eva Steinsdóttir. Vísir/Pjetur
FH-ingurinn Þórdís Eva Steinsdóttir er komin í úrslit í 400 metra hlaupi á Evrópumeistaramóti 19 ára og yngri í frjálsum íþróttum. Mótið fer fram í Tbilisi í Georgíu.

Þórdís Eva varð í öðru sæti í sínum riðli þar sem hún hljóp á 56,00 sekúndum. Hún var með fjórða besta tímann í undanúrslitunum.

Rúmeninn Andrea Miklos hljóp hraðast í riðli Þórdísar Evu en hún kom í mark á 54,69 sekúndum. Pólverjinn Karolina Lozowska og Svisslendingurinn Veronica Vancardo hlupu líka hraðar en Þórdís í hinum riðlinum.

Þórdís Eva var átta sekúndubrotum á undan hinni norsku Josefine Tomine Eriksen en hún hljóp í sama riðli og hún.

Þórdís Eva bætti sig um eitt sekúndubrot frá því í undanrásunum þar sem hún kom í mark á 56,01 sekúndum.

Þórdís Eva hleypur á sjöttu braut í úrslitahlaupinu á morgun. Hún hefur best hlaupið á 54,81 sekúndum á þessu ári en fjórar stúlkur í úrslitahlaupinu hafa náð betri tíma á árinu 2016.

Úrslitahlaupið fer fram á morgun laugardag klukkan 15.10 að íslenskum tíma eða klukkan 19.10 að staðartíma.

„Þórdís Eva á mikla möguleika að standa á verðlaunapalli," segir í frétt á heimasíðu Frjálsíþróttasambandsins þannig að það verður spennandi að sjá þessi efnilegu frjálsíþróttakonu á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×