Erlent

Þora ekki í sturtu í skólanum

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Sett hafa verið upp skilrúm í sturtuaðstöðu í sænskum skólum.
Sett hafa verið upp skilrúm í sturtuaðstöðu í sænskum skólum. NORDICPHOTOS/GETTY
Nemendur í nokkrum sveitarfélögum í Svíþjóð eru svo hræddir um að teknar verði myndir af þeim þegar þeir eru í sturtu í skólanum að þeir eru farnir að hætta að þvo sér eftir íþróttatíma. Nemendur eru einnig ragir við að fara á salerni. Þess vegna er nú verið að breyta sturtuaðstöðu og salernum í skólunum, að því er segir í frétt á vef Dagens Nyheter. Sett hafa verið upp skilrúm í sturtunum og salernin hafa verið einangruð til að draga úr hljóði frá þeim.

Í Gautaborg voru gerðar breytingar á um 600 salernum á árunum 2011 til 2013 og í fyrra voru gerðar breytingar á 16 rýmum þar sem nemendur skipta um föt og fara í sturtu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×