Innlent

Þónokkur kynbundinn launamunur meðal stjórnenda

Ásgeir Erlendsson skrifar
Þónokkur launamunur er milli kynja meðal stjórnenda á Íslandi samkvæmt tekjublaði Frjálsrar verslunar. Læknar hækka áberandi mest í launum frá fyrra ári en aðrir hópar hækka minna.

Tekjublað Frjálsrar verslunar kom út í morgun en þar er að finna tekur rúmlega 3700 Íslendinga. Í fyrra hækkaði launavísitalan um tæp 10 prósent og Jón G. Hauksson ritstjóri blaðsins segir lækna vera þann hóp sem hækki mest að þessu sinni.

„Launahækkanir lækna koma bersýnilega í ljós. Þeir hækkuðu um 24% að jafnaði, 200 efstu í þeim flokki. Ef við skoðum viðskiptalífið sjáum við að þar eru ekki miklar hækkanir en ágæt laun.“

Þensla sé í samfélaginu og Jón telur líklegt að í tekjublaðinu eftir ár verði þónokkuð launaskrið greinilegt.

Þegar meðallaun nokkurra hópa voru tekin saman voru nöfn tíu einstkalinga í flokki forstjóra, starfsmanna fjármálafyrirtækja og næstráðenda tekin út þar sem þau þóttu skekkja myndina vegna hve há þau voru þegar meðaltal var reiknað.

„Við fjarlægðum þetta út til að eyðileggja ekki þetta úrtak. Vissulega kemur það á óvart hvað menn eru að fá mikla bónusa og kaupauka enn í dag.“

Þónokkur launamunur virðist vera milli kynja þegar meðallaun stjórnenda eru skoðuð. Mestur er munurinn í hópi forstjóra en til að laun kvenna í þeim hópi þyrftu að vera rúmlega 63% hærri til að vera jöfn körlunum. Munurinn er minni meðal millistjórnenda en þar er launamunurinn 21%.

Listi Frjálsrar verslunar er byggður á útsvarsskyldum tekjum á árinu 2015 og þurfa þær því ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Í einhverjum tilvikum kann Ríkisskattstjóri að hafa áætlað tekjur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×