Viðskipti innlent

Þokumst smám saman upp listann

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Björn Brynjúlfur Björnsson hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands
Björn Brynjúlfur Björnsson hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands
Ísland er í 23. sæti í úttekt IMD viðskiptaháskólans á samkeppnishæfni þjóða árið 2016. Ísland hækkar um eitt sæti á listanum á milli ára og vegur bætt efnahagsleg frammistaða þyngst í hækkuninni en Ísland stökk upp um fimmtán sæti í þeim þætti úttektarinnar. Þá fór Ísland upp um tvö sæti í flokknum skilvirkni í atvinnulífi og um fimm sæti í skilvirkni hjá hinu opinbera.

Hins vegar eru samfélagslegir innviðir lakari en áður og lækkaði Ísland um sex sæti á þeim lista. Ísland var í fjórða sæti á listanum árið 2006 en hafði fallið niður í 29. sæti árið 2013. Síðan þá hefur Ísland hins vegar hækkað í 25. sæti árið 2014, 24. sæti árið 2015 og nú í 23. sæti.

Björn Brynjúlfur Björnsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, segir fréttirnar fínar en þó ekki frábærar. „Við þokumst smám saman upp listann en stöndum þó Skandinavíu langt að baki. Við hefðum viljað sjá hraðari framfarir,“ segir Björn.

Þá segir hann ekki raunhæft að Ísland komist aftur í fjórða sætið í náinni framtíð. „Við sjáum að ríki færast yfirleitt ekki um mjög mörg sæti á milli ára. Þess vegna höfum við talað fyrir stefnu til lengri tíma þannig við séum með áætlun sem myndi skila okkur í eitt af efstu sætunum á næstu tíu til tuttugu árum en horfum ekki alltaf til eins árs í senn,“ segir Björn. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 31. maí






Fleiri fréttir

Sjá meira


×