Innlent

Þokkalegt helgarveður þrátt fyrir litla sól

Randver Kári Randversson skrifar
Þokkalegt veður verður um helgina en sólarlítið.
Þokkalegt veður verður um helgina en sólarlítið.
Eftir mikla vætutíð á höfuðborgarsvæðinu það sem af er sumri eru margir höfuðborgarbúar eflaust orðnir sólarþyrstir og ætla má að margir hyggi nú á ferðalög til að komast aðeins út úr rigningunni. Vísir grennslaðist fyrir um það hvernig veðrið verður um helgina.

Að sögn spádeildar veðurstofunnar lítur helgin þokkalega. Veðurfræðingur segir að á heildina litið verði helgin ekkert slæm þótt hún gæti orðið sólarlítil. Alltaf sé möguleiki að það glaðni til, þó síst á föstudaginn.

Það má búast við blautum föstudegi þó síst austanlands þar sem eru mestar líkur á sól.

Á laugardaginn er möguleiki á sólarglennum á sunnanverðu landinu, en einhverri úrkomu fyrir norðan.

Sunnudagurinn verður þokkalegur víða um landið en þá verður hæðarhryggur yfir landinu. Þá verða hægir vindar, bjart með köflum og milt, eiginlega um allt land.  Líkur eru á að það geti létt til, helst inn til landsins.

Hiti verður víða um 11-15 stig, að meðaltali um landið yfir helgina. Á föstudag gæti hitinn farið upp í 18-20 stig á Austurlandi og á laugardag gæti farið upp í 16-17 stig sunnanlands. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×