Innlent

Þokast í átt að samkomulagi um þinglok

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ráðherrar við eldhúsdagsumræður á Alþingi í liðinni viku.
Ráðherrar við eldhúsdagsumræður á Alþingi í liðinni viku. vísir/eyþór
Fundi leiðtoga stjórnarandstöðunnar með þeim Sigurði Inga Jóhannssyni forsætisráðherra og Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra lauk núna á ellefta tímanum.

Birgitta Jónsdóttir þingflokksformaður Pírata segir fundinn í kvöld hafa verið gagnlegri en til að mynda fundurinn sem stjórnarandstaðan var boðuð á í gær.

„Þetta er að þokast í rétta átt og við gerum ráð fyrir að ná samkomulagi um þinglok á morgun,“ segir Birgitta í samtali við Vísi. Hún vill ekki tjá sig að öðru leyti um fundinn en kveðst þó aðspurð ætla að ekki sé raunhæft að ljúka þingi í þessari viku heldur muni þingstörfin eitthvað teygja sig fram í næstu viku.

Engin starfsáætlun er í gildi á Alþingi en á mánudaginn í síðustu viku fóru fram eldhúsdagsumræður sem jafnan marka þinglok enda átti þingi að ljúka fimmtudaginn 29. september. Það stendur þó enn og hefur stjórnarandstaðan ítrekað kallað eftir lista frá ríkisstjórninni yfir þau mál sem stjórnarflokkarnir vilja klára áður en þingi lýkur.

Á fundi með stjórnarandstöðunni í gær lögðu þeir Sigurður og Bjarni fram lista yfir sextán mál sem ríkisstjórnin vill ljúka. Hvort að eitthvað hafi fækkað á þeim lista í kvöld liggur ekki fyrir en á meðal umdeildra mála ríkisstjórnarinnar eru LÍN-frumvarpið og frumvarp um lagningu raflína til Bakka.


Tengdar fréttir

Árni Páll íhugar að kvarta til ÖSE

Til greina kemur að kvarta til Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE, ef ríkisstjórnarflokkarnir halda áfram kosningabaráttu á meðan minnihlutinn sinnir þingstörfum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×